Búlgarski framherjinn Dimitar Berbatov stimplaði rækilega inn í lið Tottenham Hotspur í dag þegar hann skoraði bæði mörk liðsins í æfingaleik gegn Birmingham á útivelli. Tottenham stillti upp sókndjörfu liði í leiknum með þá Robbie Keane og Jermain Defoe í fremstu víglínu ásamt Berbatov, en það var Búlgarinn sem stal senunni með tveimur þrumuskotum í 2-0 sigri Lundúnaliðsins.
Tottenham hafði nýlokið æfingaferðalagi í Frakklandi þar sem liðið vann alla sína leiki og lét Martin Jol knattspyrnustjóri hafa eftir sér í gær að hann væri afar sáttur við leikform sinna manna til þessa á undirbúningstímabilinu.