Arsenal varð að láta sér lynda jafntefli í opnunarleik sínum í ensku úrvalsdeildinni í dag þegar liðið tók á móti Aston Villa á nýja Emirates-vellinum í London og sagði Arsene Wenger leikinn hafa verið dæmigerðan upphafsleik þar sem leikmenn væru ekki komnir að fullu í gang eftir sumarið. Hann var ánægður með táninginn Theo Walcott sem kom inná sem varamaður og átti stóran þátt í jöfnunarmarki Arsenal.
"Auðvitað hefðum við kosið að sigra í fyrsta leik okkar í deildinni, en Aston Villa varðist mjög vel. Ef mínir menn hefðu allir verið komnir í toppform hefðum við líklega náð að vinna þennan leik með þremur eða fjórum mörkum, en við náðum ekki að klára færin okkar í dag þrátt fyrir fína spilamennsku. Ég var ánægður með innkomu Theo Walcott í dag og mér fannst hann standa sig vel á miðað við þær ströngu kröfur sem gerðar eru til hans," sagði Wenger í viðtali á heimasíðu félagsins.