Skoðun

Þjóðareign í stjórnarskrá

Jón Sigurðsson skrifar
Frumvarp stjórnarflokkanna um auðlindaákvæði í stjórnarskrá Íslands er útfærsla á sameiginlegri niðurstöðu beggja flokka sem náðist fyrir mörgum árum og hefur verið rædd og undirbúin um langt árabil.

Nægir í því efni að vísa til álitsgerðar svonefndrar auðlindanefndar sem út kom í september árið 2000. Frumvarpið er byggt beinlínis á ákvæði stjórnarsáttmálans, en þar segir m.a.: “auðlindir sjávar séu sameign íslensku þjóðarinnar”.

Megintilgangur frumvarpsins er að staðfesta eign þjóðarinnar á auðlindunum og að staða nýtingarheimilda haldist óbreytt, þannig að nýtingarheimildir, t.d. fiskveiðiheimildir, verði ekki – hvorki nú né síðar – háðar beinum eignarrétti heldur séu og verði áfram afturkræfur afnotaréttur. Þetta kemur skýrt fram, m.a. með beinum hætti í greinargerð og skýringum. Auk þess var kveðið skýrt að orði um þetta í framsöguræðum á alþingi.

Jafnframt er ljóst að löggjafarvald alþingis er ótvírætt til að ákvarða um nánari tilhögun og útfærslur vegna afnota og hagnýtingar samkvæmt sérstökum lögum sem löggjafinn kann að kjósa að setja um þau efni.

Í frumvarpinu er fjallað almennt um náttúruauðlindir Íslands en ekki aðeins um auðlindir sjávar. Kveðið er á um “þjóðareign” og vísað er til réttinda samkvæmt eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar. Loks er kveðið á um heimildir til afnota eða hagnýtingar á auðlindunum samkvæmt lögum.

Það er mjög mikilvægt að kveða á um þjóðareign á auðlindum í stjórnarskránni. Með slíkum hætti eru settar skýrar grundvallarreglur um þetta þjóðarmálefni. Þar með er fyllsta öryggi tryggt og stöðugleiki um þessi réttindi og eigur þjóðarinnar. Hugtakið “þjóðareign” er þegar fyrir hendi í lögum, t.d. lögunum um þjóðgarðinn að Þingvöllum. Og þetta hugtak felur það m.a. í sér að eignartilkalli allra annarra aðila – nú eða síðar – er hafnað og hrundið. Hugsanlegu eignartilkalli einkaaðila til þjóðareignarinnar og yfirráðatilburðum allra slíkra aðila er hafnað og hrundið í eitt skipti fyrir öll.

Höfundur er formaður Framsóknarflokksins.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×