„Ég er að leita að leikara í hlutverk Manuelo, sem er mjög mikilvægt í Sólarferð. Verkið er íslenskt harðkjarnadrama sem gerist á spænskri sólarströnd, og Manuelo er stóra freistingin, snákurinn í Eden," útskýrði Benedikt, sem hefur ákveðnar hugmyndir um hvað leikarinn eigi að hafa til brunns að bera.
„Ég er að leita að nýjum Baltasar Kormáki," sagði Benedikt alvarlegur. „Baltasar hefur reyndar boðið sig fram sjálfur. Við erum svona að hugleiða umsóknina, en hann á ágætis séns ef hann mætir í áheyrnarprufur," sagði Benedikt og hló við.
„En svona að öllu gríni slepptu vil ég fá sem flesta í prufur. Þeir sem vilja gera eitthvað skemmtilegt og prófa að vinna í leikhúsi eru boðnir hjartanlega velkomnir, að því tilskildu að þeir séu af réttum kynþætti," áréttaði hann. „Við viljum nýbúa á stóra svið Þjóðleikhússins, tími þeirra er runninn upp," bætti hann við.

„Móðir mín var leikstjóri hér í þrjátíu ár. Það er undir hennar væng sem ég hætti mér inn í þetta hús og ætla að reyna að feta í fótspor hennar," sagði Benedikt.
„Kristján Jóhannsson hélt tónleika fyrir móður sína á Akureyri, og þetta eru mínir tónleikar fyrir mömmu," bætti hann við en ítrekaði að hann stæði þó alls ekki einn að sýningunni. „Við erum fleiri sem höldum hér tónleika," sagði hann.
Áheyrnarprufur fyrir hlutverk Manuelo fara fram í æfingahúsnæði Þjóðleikhússins við Lindargötu 3 klukkan 17 í dag. Skráning fer fram hjá Dóru Hafsteinsdóttur í síma 585 1214, eða á dora@leikhusid.is.