Peter Henriksen, annar markmanna danska landsliðsins í handbolta, segir að liðinu bíði erfitt verkefni gegn Íslandi í 8-liða úrslitum HM í Þýskalandi. Hann telur byrjunarlið Íslands vera eitt það allra besta í heimi en lykillinn að sigri sé að stöðva Ólaf Stefánsson.
"Ólafur Stefánsson er á meðal bestu leikmanna heims og sókn Íslands gengur að miklu leyti út á hann. Hann er ævinlega bestur þegar mest á reynir en ef við spilum góða vörn tel ég að við vinnum leikinn," sagði Henriksen og lofaði byrjunarliði Íslands í hástert. "Þetta er eitt besta lið heims."