Floyd Mayweather lætur ekki sitt eftir liggja til að kynda undir risabardaga sinn við Englendinginn Ricky Hatton. Hinn kjaftfori Mayweather kallar andstæðing sinn Vicky Fatton og segir hann loksins vera að berjast við almennilegan andstæðing.
"Ricky Hatton hefur kannski verið að gera ágæta hluti fram að þessu en nú er hann kominn í úrvalsdeildina - nú er hann að fara að berjast við Floyd Mayweather. Ég er á hátindi ferilsins og þetta er rjómabardagi," sagði Mayweather og starði í augun á andstæðingi sínum á kynningarfundi í Los Angeles.
Ricky Hatton lætur ekki kjafthátt andstæðingsins hafa áhrif á sig og sneri látunum í Bandaríkjamanninum upp í grín. "Floyd er að fara taka þátt í "Dancing with the Stars", eða þannig boxar hann í það minnsta. Ég ætla mér að verða besti boxari í heimi pund fyrir pund," sagði Hatton rólegur.