Handknattleikskappinn Einar Örn Jónsson mun snúa heim í sumar og ganga til liðs við Hauka á ný. Hann hefur skrifað undir tveggja ára samning við Hafnarfjarðarliðið sem tekur gildi í sumar.
Einar leikur nú með Minden í Þýskalandi en hann hefur einnig leikið með Wallau Massenheim og Torrevieja á Spáni. Einar er örvhentur og leikur oftar en ekki sem hægri hornamaður.
„Einar átti mjög góð ár hjá Haukum áður en hann fór út og er orðinn Haukamaður í dag," sagði Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, í samtali við haukar.is.
