Líf er að komast að nýju í Samuraibréfamarkaðinn eftir að Kaupþing eyðilagði hann fyrr í vetur með því að láta nokkra flokka af þeim bréfum gjaldfalla á bankann í kjölfar þess að bankinn varð gjaldþrota í haust.
Í frétt um málið á Bloomberg-fréttaveitunni segir að enduropnun markaðarins með Samuraibréfin sé á næsta leiti þar sem lánsfjármarkaðurinn í Japan sé að ná stöðugleika á ný og jafnframt að stjórnvöld í Japan ætli að tryggja útgáfu bréfanna.
Útgáfa Samuraibréfanna snarminnkaði í kjölfar hruns Lehman Brothers og stöðvaðist algerlega þegar Kaupþing hrundi. Svipað og krónubréf eru Samuraibréfin gefin út í jenum á vegum erlendra fjármálafyrirtækja og síðan seld japönskum fjárfestum.
Áður en Kaupþing gerði það að verkum að markaðurinn með bréfin stöðvaðist algerlega s.l. haust stefndi í metútgáfu á bréfunum á síðasta ári en upphæð þeirra náði tæplega 24 milljörðum dollara á árinu.
Meðal þeirra sem nú hyggja á útgáfu Samuraibréf eru stórbankinn ANZ í Ástralíu, Westpac, Posco og Commonwealth Bank of Australía.