Skoðun

Enn um landhreinsun

Jón Baldvin Hannibalsson skrifar
Dálkahöfundur Fréttablaðsins þykist kunna skýringu á því, hvers vegna ég get ekki mælt með Árna Mathiesen í stjórnunarstöðu hjá FAO vegna ferils hans í aðdraganda hruns. Skýring Björns er einföld: "Í hans ráðherratíð (þ.e. Jóns Baldvins) réði hann nefnilega ekki - eða studdi til starfa - aðra en samflokksmenn".

Ég efast um, að t.d. Ingimundur Sigfússon, fv. formaður fjáröflunarnefndar Sjálfstæðisflokksins, sem ég skipaði sendiherra, telji það kompliment að vera stimplaður krati. Alla vega er þessi fullyrðing blaðamannsins ekki sannleikanum samkvæm.

Fæstir þeirra sem ég "studdi til starfa", hefðu gengist við því að vera kratar, enda ráðnir í þjónustuna af utanríkisráðherrum helmingaaskiptaflokkanna. Það var því varla öðrum til að dreifa til "að styðja til starfa", eins og Björn orðar það. Þannig skipaði ég fyrstu konuna í sendiherraembætti, Sigríði Snævarr, eiginkonu Kjartans Gunnarssonar, framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins

Hins vegar kannast ég ekki við að nánustu samstarfsmenn mínir í EES- samningunum, t.d. Hannes Hafstein, aðalsamningamaður, eða sendiherrarnir Gunnar Snorri Gunnarsson og Einar Benediktsson hafi verið í Alþýðuflokknum. Heyrði ég rétt, að Einar hafi verið að segja sig úr Sjálfstæðisflokknum? Ég sá hins vegar enga ástæðu til að setja sósíaldemókrata í "Berufsverbot" (atvinnubann), þegar starfshæfni þeirra var óvéfengjanleg. Gott dæmi um það var skipun Kjartans Jóhannssonar sendiherra hjá EFTA. Kjartan er doktor í verk - og hagfræði og reyndist svo vel í starfi, að hann þótti eftirsóttur sem framkvæmdastjóri EFTA.

Tímabilið 1988-94 er lengsta samdráttarskeið lýðveldissögunnar. Af sparnaðarástæðum var því lengst af ráðningarbann í gildi, þ.e. nýtt fólk var aðeins ráðið til starfa í stað þeirra sem hættu. Í góðærinu fram að hruni fjölgaði starfsmönnum utanríkisþjónustunnar gríðarlega.Vonandi verður þó langt í það, að annar utanríkisráðherra slái met Davíðs Oddssonar, sem skipaði ellefu sendiherra - flesta hverja pólitíska trúnaðarmenn sína - á þeim fáum mánuðum, sem hann gisti ráðuneytið, áður en hann stýrði Seðlabankanum í hrun.

Vilji lesendur hins vegar forvitnast um það, hvers vegna ég tel, að utanríkisráðherra hefði átt að láta ógert að senda Mathiesen til Rómar, geta menn séð rökstuðning minn fyrir því í greininni (Land)hreinsun á heimasíðu minni: jbh.is. Ætli okkur veiti af að efla annars konar útflutningi næstu misserin.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×