Sextán ára gamall piltur sem bjargað var úr húsarústum í norðurhluta Japans ásamt ömmu sinni eftir níu daga segir þau hafa nærst á vatni og flögum. Staðfest er að tala látinna sé nú nærri níu þúsund og um þrettán þúsund er enn saknað.
Pilturinn sem heitir Jin Abe talaði í fyrsta skipti við blaðamenn á sjúkrahúsi í morgun en hann hafði setið fastur ásamt ömmu sinni í húsi þeirra frá því að skjálftinn reið yfir fyrir níu dögum.
„Það er mikill léttir að okkur skuli hafa verið bjargað," sagði hann við blaðamenn.
Abe fannst á þaki hússins í bænum Ishinomaki þar sem hann hafði vafið sig inn í handklæði og kallaði á hjálp. Amma hans Sumi Abe, sat einnig föst í húsinu, en þau vissu í raun ekki hvar þau voru.
„Ég vissi bara að við værum einhvers staðar í húsinu," sagði hann.
Hin áttræða amma var veikburða og átti erfitt með að ganga, en var flott á brott með þyrlu. Það sem varð þeim til happs var að þau komust í ísskáp heimilisins og nærðust á vatni og flögum að sögn drengsins.
Björgunarfólk í Japan lítur á björgun Abe og ömmu hans sem kraftaverk en litlar líkur eru taldar á því að fleiri geti verið á lífi. Frá Japan berast annars þær fréttir að tala látinna sé í kringum 9 þúsund og er um 13 þúsund enn saknað.
