Valddreifing, ábyrgð og gegnsæi Steinunn Stefánsdóttir skrifar 30. júlí 2011 07:00 Stjórnlagaráð afhenti í gær forseta Alþingis frumvarp sitt að nýrri stjórnarskrá fyrir Ísland. Þetta plagg er merkilegt fyrir margra hluta sakir. Í fyrsta lagi er hér um að ræða fyrstu frumsömdu stjórnarskrá lýðveldisins og myndu nú margir segja að tími væri kominn til eftir hartnær 70 ár og tilraunir ýmissa nefnda skipuðum valinkunnum mönnum til að koma saman nýrri stjórnarskrá. Valddreifing, ábyrgð og gegnsæi voru einkunnarorð stjórnlagaráðsins og þess sér stað í frumvarpinu sem er unnið í anda þjóðfundarins 2010, auk þess sem skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis var meðal þess sem haft var til hliðsjónar í starfi ráðsins. Tilraunin sem fólst í stjórnlagaþinginu sem svo varð stjórnlagaráð er einstæð. Í stjórnlagaráðinu kom saman breiður hópur Íslendinga sem áttu sameiginlegan einlægan áhuga á lýðræði og þátttöku í að skrifa Íslendingum nýja stjórnarskrá. Sumir áttu eitthvert bakland í pólitík, aðrir í ýmiss konar hagsmunasamtökum en margir komu einnig stakir leiks. Hópurinn vann svo saman í einingu, skilaði verki sínu á tilsettum tíma, plaggi sem hið 25 manna ráð samþykkti einum rómi. Þessir fulltrúar verðskulda þakkir íslensku þjóðarinnar fyrir vel unnin störf. Þorvaldur Gylfason lét þau orð falla þegar frumvarpið var afhent Alþingi í gær að um væri að ræða stærsta sigur í lýðræðissögu Íslands vegna þess einhugar sem ríkti um það í ráðinu. Ekki ber þó að skilja þetta samhljóða samþykki á þann veg að allir væru alltaf sammála um allt sem þar stendur því sannarlega var tekist á um margt á fyrri stigum ferlisins. Hins vegar ríkti um það eining í ráðinu að standa sameiginlega að því lokaplaggi sem orðið hafði til í lýðræðislegu vinnuferli. Tillögurnar fara nú til meðferðar Alþingis en þar hefur verið skipuð sérstök fastanefnd sem fjallar um stjórnskipunarmál. Sömuleiðis hefur ráðið hvatt til þess að efnt verði til víðtækrar umræðu í samfélaginu um það frumvarp sem nú liggur fyrir. Með starfi sínu hefur stjórnlagaráðið sett fordæmi sem margir gætu tekið sér til fyrirmyndar, meðal annars alþingismenn og ýmsir aðrir sem láta til sín taka í þjóðmálaumræðunni. Stjórnlagaráð hefur vonandi með starfi sínu og umræðuhefð lagt grunninn að málefnalegri umræðu um það frumvarp að stjórnarskrá sem nú liggur fyrir. Dapurlegt væri í það minnsta ef frumvarpið yrði ómálefnalegri hatursumræðu að bráð eins og svo margt annað sem rætt er um í íslensku samfélagi. Lokamarkmiðið er svo vitanlega það að Íslendingar fagni nýrri stjórnarskrá á allra næstu árum, til dæmis þann 17. júní árið 2014 þegar lýðveldið verður sjötugt. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Steinunn Stefánsdóttir Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Svartir föstudagar í boði íslenskra stjórnvalda Haukur Guðmundsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun
Stjórnlagaráð afhenti í gær forseta Alþingis frumvarp sitt að nýrri stjórnarskrá fyrir Ísland. Þetta plagg er merkilegt fyrir margra hluta sakir. Í fyrsta lagi er hér um að ræða fyrstu frumsömdu stjórnarskrá lýðveldisins og myndu nú margir segja að tími væri kominn til eftir hartnær 70 ár og tilraunir ýmissa nefnda skipuðum valinkunnum mönnum til að koma saman nýrri stjórnarskrá. Valddreifing, ábyrgð og gegnsæi voru einkunnarorð stjórnlagaráðsins og þess sér stað í frumvarpinu sem er unnið í anda þjóðfundarins 2010, auk þess sem skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis var meðal þess sem haft var til hliðsjónar í starfi ráðsins. Tilraunin sem fólst í stjórnlagaþinginu sem svo varð stjórnlagaráð er einstæð. Í stjórnlagaráðinu kom saman breiður hópur Íslendinga sem áttu sameiginlegan einlægan áhuga á lýðræði og þátttöku í að skrifa Íslendingum nýja stjórnarskrá. Sumir áttu eitthvert bakland í pólitík, aðrir í ýmiss konar hagsmunasamtökum en margir komu einnig stakir leiks. Hópurinn vann svo saman í einingu, skilaði verki sínu á tilsettum tíma, plaggi sem hið 25 manna ráð samþykkti einum rómi. Þessir fulltrúar verðskulda þakkir íslensku þjóðarinnar fyrir vel unnin störf. Þorvaldur Gylfason lét þau orð falla þegar frumvarpið var afhent Alþingi í gær að um væri að ræða stærsta sigur í lýðræðissögu Íslands vegna þess einhugar sem ríkti um það í ráðinu. Ekki ber þó að skilja þetta samhljóða samþykki á þann veg að allir væru alltaf sammála um allt sem þar stendur því sannarlega var tekist á um margt á fyrri stigum ferlisins. Hins vegar ríkti um það eining í ráðinu að standa sameiginlega að því lokaplaggi sem orðið hafði til í lýðræðislegu vinnuferli. Tillögurnar fara nú til meðferðar Alþingis en þar hefur verið skipuð sérstök fastanefnd sem fjallar um stjórnskipunarmál. Sömuleiðis hefur ráðið hvatt til þess að efnt verði til víðtækrar umræðu í samfélaginu um það frumvarp sem nú liggur fyrir. Með starfi sínu hefur stjórnlagaráðið sett fordæmi sem margir gætu tekið sér til fyrirmyndar, meðal annars alþingismenn og ýmsir aðrir sem láta til sín taka í þjóðmálaumræðunni. Stjórnlagaráð hefur vonandi með starfi sínu og umræðuhefð lagt grunninn að málefnalegri umræðu um það frumvarp að stjórnarskrá sem nú liggur fyrir. Dapurlegt væri í það minnsta ef frumvarpið yrði ómálefnalegri hatursumræðu að bráð eins og svo margt annað sem rætt er um í íslensku samfélagi. Lokamarkmiðið er svo vitanlega það að Íslendingar fagni nýrri stjórnarskrá á allra næstu árum, til dæmis þann 17. júní árið 2014 þegar lýðveldið verður sjötugt.