Gengisvísitala tungutaks og krónu 8. október 2011 06:00 Eftir að eiginkona forseta Íslands hafði faðmað mótmælendur á Austurvelli við þingsetninguna fyrir viku skrifaði efnahagsráðherra hugleiðingu þar sem hann spurði hvert við værum komin „þegar forsetafrúin snýr baki í þingið og setur einkaleikþátt á svið“. Þessi orð eru vissulega umhugsunarefni. Nú er það svo að sitt sýnist hverjum um eggjakastið frá Austurvelli þessa morgunstund. Það er ekki umræðuefnið í dag heldur hitt að orð ráðherrans hafa ekki vakið nein viðbrögð. Erfitt er að ímynda sér ummæli af þessu tagi og tilefni þeirra í öðrum vestrænum menningarríkjum. En ganga má út frá því sem vísu að teldi ráðherra í öðru ríki efni til að láta svo alvarleg orð falla leiddi það til nokkurrar umræðu. Sumir kunna að vera þeirrar skoðunar að eiginkona forsetans hafi sýnt alþýðunni þá hjartahlýju sem ríkisstjórnina skorti. Ætla má að aðrir deili skoðunum með ráðherranum og líti svo á að hún hafi tekið stöðu með þeim sem snúa vilja baki við Alþingi án þess að hafa nokkuð fram að færa til lausnar. Kjarni málsins er sá að annað hvort fór eiginkona forsetans yfir strikið í athöfnum sínum eða ráðherrann í orðum sínum. Rökræða á Alþingi eða í ríkisráði hefði með réttu átt að leiða til niðurstöðu sem annað hvort þeirra hefði þurft að bregðast við. En hér gerist ekkert, rétt eins og athafnir og orð hafi ekki merkingu. Í Guðsgjafaþulu Halldórs Laxness kusu víxlarar í London heldur falska peninga en íslenska. Sá skáldskapur lýsti framvirkri hugsun. En hitt er ekki síður íhugunarverður veruleiki að gengisvísitala tungutaksins í pólitíkinni virðist sveiflast eftir svipuðum brautum og krónan.Þegar vond mynt rekur þá góðu út Ádeilan á Alþingi er ekki ný af nálinni. Það er heldur ekki umræðan um flokksræði, foringjaræði, sérgæsku og hrossakaup. Heimildir sýna að álit fólks á þjóðþinginu hefur oft sinnis fallið eins og nú. Prófessor Guðmundur Finnbogason skrifaði árið 1924 bókina Stjórnarbót og lýsir þar vanda stjórnmálanna með þessum orðum: „Frambjóðandi, sem væri of samvizkusamur til að lofa því, sem hann vissi að hann gæti ekki efnt, svo hreinskilinn, að hann segði afdráttarlaust skoðun sína á hverju máli, hvort sem áheyrendum líkaði betur eða ver, og svo sanngjarn, að hann léti andstæðinga sína alt af njóta sannmælis, mundi sumstaðar standa illa að vígi gegn þeim, sem bæði væri lagnari og lygnari en hann og lofaði margfalt meiru. Það er því hætt við, að um frambjóðendur fari líkt og um góða og vonda mynt samkvæmt Greshams lögmáli: Vonda myntin rekur góðu myntina af markaðinum.“ Þannig viku vond stjórnmál góðum til hliðar í hugum margra fyrir hart nær öld. Þetta er ekki dregið fram til að bera í bætifláka fyrir bága stöðu Alþingis eins og hún blasir við á líðandi stund. Ætli menn sér hins vegar að auka vegsemd þingsins er rétt að sjá hlutina í víðu sögulegu samhengi. Margir kjósendur fylgja þeim að málum sem vilja heldur fleiri verðlitlar krónur en færri og verðmeiri. Eins hrífast ýmsir af þeim sem nota stór en innihaldsrýr orð fremur en hinum sem viðhafa hófsamari orð en innihaldsríkari. Það má ekki gleymast að samband kjósenda og stjórnmálamanna er gagnvirkt.Ábyrgðin ræður verðgildi orðanna Eftir hrun krónunnar töldu margir að hækka mætti gengi stjórnmálanna með nýrri stjórnarskrá. Hugmyndir stjórnlagaráðs liggja nú fyrir. Forseti Íslands setti mark sitt á upphaf þinghaldsins að þessu sinni með skýringum sínum á þeim texta. Samkvæmt þeim fær forsetinn stóraukin völd um leið og þrengt verður að ríkisstjórn og Alþingi. Eftir ræðu forsetans hafa nokkrir stjórnlagaráðsmenn fullyrt að þeir hafi haft allt annað í huga. Ekki er unnt að draga það í efa. Hitt vita allir sem lesið hafa textann að skýringar forsetans eru ekki vitlausari en hverjar aðrar. Trúlega hafa kaupin gerst þannig á eyrinni við textagerðina að ólíkum hugmyndum hefur verið hrært saman til að hafa alla sátta. Niðurstaðan er texti sem eykur á stjórnskipulega óvissu í stað þess að eyða henni. Forsætisráðherrann hefur það eitt til málanna að leggja að þjóðin eigi að greiða um þetta atkvæði. Merking orðanna í textanum er hins vegar aukaatriði. Á henni ætlar enginn að bera ábyrgð. Þjóðaratkvæði leysir ekki þann vanda. Til þess þarf forystu. Menn hafa lært að gengi krónunnar ræðst af verðmætasköpun en ekki reglum. Athafnir og orð þeirra sem stjórna landinu lúta líka sínu lögmáli. Ábyrgðin sem að baki býr ræður mestu um verðgildi þeirra. Einfalt lögmál sem þó hefur vafist fyrir mönnum á öllum tímum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óstjórn í húsnæðismálum Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun
Eftir að eiginkona forseta Íslands hafði faðmað mótmælendur á Austurvelli við þingsetninguna fyrir viku skrifaði efnahagsráðherra hugleiðingu þar sem hann spurði hvert við værum komin „þegar forsetafrúin snýr baki í þingið og setur einkaleikþátt á svið“. Þessi orð eru vissulega umhugsunarefni. Nú er það svo að sitt sýnist hverjum um eggjakastið frá Austurvelli þessa morgunstund. Það er ekki umræðuefnið í dag heldur hitt að orð ráðherrans hafa ekki vakið nein viðbrögð. Erfitt er að ímynda sér ummæli af þessu tagi og tilefni þeirra í öðrum vestrænum menningarríkjum. En ganga má út frá því sem vísu að teldi ráðherra í öðru ríki efni til að láta svo alvarleg orð falla leiddi það til nokkurrar umræðu. Sumir kunna að vera þeirrar skoðunar að eiginkona forsetans hafi sýnt alþýðunni þá hjartahlýju sem ríkisstjórnina skorti. Ætla má að aðrir deili skoðunum með ráðherranum og líti svo á að hún hafi tekið stöðu með þeim sem snúa vilja baki við Alþingi án þess að hafa nokkuð fram að færa til lausnar. Kjarni málsins er sá að annað hvort fór eiginkona forsetans yfir strikið í athöfnum sínum eða ráðherrann í orðum sínum. Rökræða á Alþingi eða í ríkisráði hefði með réttu átt að leiða til niðurstöðu sem annað hvort þeirra hefði þurft að bregðast við. En hér gerist ekkert, rétt eins og athafnir og orð hafi ekki merkingu. Í Guðsgjafaþulu Halldórs Laxness kusu víxlarar í London heldur falska peninga en íslenska. Sá skáldskapur lýsti framvirkri hugsun. En hitt er ekki síður íhugunarverður veruleiki að gengisvísitala tungutaksins í pólitíkinni virðist sveiflast eftir svipuðum brautum og krónan.Þegar vond mynt rekur þá góðu út Ádeilan á Alþingi er ekki ný af nálinni. Það er heldur ekki umræðan um flokksræði, foringjaræði, sérgæsku og hrossakaup. Heimildir sýna að álit fólks á þjóðþinginu hefur oft sinnis fallið eins og nú. Prófessor Guðmundur Finnbogason skrifaði árið 1924 bókina Stjórnarbót og lýsir þar vanda stjórnmálanna með þessum orðum: „Frambjóðandi, sem væri of samvizkusamur til að lofa því, sem hann vissi að hann gæti ekki efnt, svo hreinskilinn, að hann segði afdráttarlaust skoðun sína á hverju máli, hvort sem áheyrendum líkaði betur eða ver, og svo sanngjarn, að hann léti andstæðinga sína alt af njóta sannmælis, mundi sumstaðar standa illa að vígi gegn þeim, sem bæði væri lagnari og lygnari en hann og lofaði margfalt meiru. Það er því hætt við, að um frambjóðendur fari líkt og um góða og vonda mynt samkvæmt Greshams lögmáli: Vonda myntin rekur góðu myntina af markaðinum.“ Þannig viku vond stjórnmál góðum til hliðar í hugum margra fyrir hart nær öld. Þetta er ekki dregið fram til að bera í bætifláka fyrir bága stöðu Alþingis eins og hún blasir við á líðandi stund. Ætli menn sér hins vegar að auka vegsemd þingsins er rétt að sjá hlutina í víðu sögulegu samhengi. Margir kjósendur fylgja þeim að málum sem vilja heldur fleiri verðlitlar krónur en færri og verðmeiri. Eins hrífast ýmsir af þeim sem nota stór en innihaldsrýr orð fremur en hinum sem viðhafa hófsamari orð en innihaldsríkari. Það má ekki gleymast að samband kjósenda og stjórnmálamanna er gagnvirkt.Ábyrgðin ræður verðgildi orðanna Eftir hrun krónunnar töldu margir að hækka mætti gengi stjórnmálanna með nýrri stjórnarskrá. Hugmyndir stjórnlagaráðs liggja nú fyrir. Forseti Íslands setti mark sitt á upphaf þinghaldsins að þessu sinni með skýringum sínum á þeim texta. Samkvæmt þeim fær forsetinn stóraukin völd um leið og þrengt verður að ríkisstjórn og Alþingi. Eftir ræðu forsetans hafa nokkrir stjórnlagaráðsmenn fullyrt að þeir hafi haft allt annað í huga. Ekki er unnt að draga það í efa. Hitt vita allir sem lesið hafa textann að skýringar forsetans eru ekki vitlausari en hverjar aðrar. Trúlega hafa kaupin gerst þannig á eyrinni við textagerðina að ólíkum hugmyndum hefur verið hrært saman til að hafa alla sátta. Niðurstaðan er texti sem eykur á stjórnskipulega óvissu í stað þess að eyða henni. Forsætisráðherrann hefur það eitt til málanna að leggja að þjóðin eigi að greiða um þetta atkvæði. Merking orðanna í textanum er hins vegar aukaatriði. Á henni ætlar enginn að bera ábyrgð. Þjóðaratkvæði leysir ekki þann vanda. Til þess þarf forystu. Menn hafa lært að gengi krónunnar ræðst af verðmætasköpun en ekki reglum. Athafnir og orð þeirra sem stjórna landinu lúta líka sínu lögmáli. Ábyrgðin sem að baki býr ræður mestu um verðgildi þeirra. Einfalt lögmál sem þó hefur vafist fyrir mönnum á öllum tímum.