Lífið

Flytur frumsamið jólalag fyrir nútímafjölskylduna

Benedikt Bóas skrifar
Halldór er ánægður með að geta lagt söfnun UNICEF lið. Fréttablaðið/anton
Halldór er ánægður með að geta lagt söfnun UNICEF lið. Fréttablaðið/anton

„Jú, ég verð með í dagskránni,“ segir Halldór Gylfason leikari, sem mun frumflytja glænýtt frumsamið jólalag í kvöld í tilefni Dags rauða nefsins. Margir kannast eflaust við spurninguna sem Halldór veltir upp í laginu, sem er í óhefðbundnari kantinu og ber heitið Nútímafjölskyldujól.

„Sko, við höfum öll þessa hugmynd um að þegar jólin hringi inn klukkan sex safnist pabbi og mamma og systkinin saman að jólaborðinu. Þannig er það náttúrulega í fæstum tilfellum. Á flestum heimilum eru það stjúppabbi, stjúpmamma og hálfsystkini sem setjast saman,“ segir Halldór, sem fékk hugmyndina að laginu fyrir ári.

Hann segir að það hafi runnið upp fyrir sér að enginn hafi fjallað um þessa hlið jólanna þegar samstarfsfólk hans og vinir stóðu í ströngu við að skipuleggja og ráðstafa hvenær börnin ættu að vera hvar yfir hátíðarnar. „Sjálfur er ég ekki skilnaðarbarn og ekki börnin mín heldur, þannig að þetta er frekar hefðbundið hjá mér. En lagið fjallar um þetta púsluspil sem hin íslenska nútímafjölskylda stendur frammi fyrir þegar jólin nálgast og börnin fara að spyrja sig hvar þau verði um jólin.“

Halldór frumflytur lagið einn síns liðs í skemmtidagskránni sem sýnd verður í kvöld á Stöð 2, en í stúdíóútgáfu sem kemur út á næstu dögum nýtur hann liðsinnis Geirfuglanna. Hann segist ætla að fylgjast með dagskránni eins vel og hann getur. „Þetta er frábært framtak og verður rosalega skemmtilegt.“

Klippa: Halldór Gylfason - Nútímafjölskyldujól - Rauða nefið 2011





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.