Handbolti

Arnór með átta stoðsendingar í sigri Flensburg

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnór Atlason.
Arnór Atlason. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Arnór Atlason átti fínan leik þegar lið hans Flensburg-Handewitt vann öruggan sex marka sigur á Magdeburg, 30-24, í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.

Flensburg var búið að tapa tveimur leikjum í röð fyrir þennan leik sem báðir voru á útivelli. Liðið komst upp að hlið HSV Hamburg með þessum góða sigri en liðin eru bæði með 14 stig í 5. til 6. sæti.

Arnór var með tvö mörk og átta stoðsendingar í leiknum auk þess að spila vel í hinn sterku 6:0 vörn liðsins. Danski hornamaðurinn Anders Eggert var markahæstur með átta mörk og landi hans Thomas Mogensen skoraði sex mörk.

Flensburg hefur unnið alla fimm heimaleiki tímabilsins og þetta var fimmtándi heimasigur liðsins í röð í þýsku deildinni.

Flensburg var fjórum mörkum yfir í hálfleik 17-13 eftir að hafa unnið síðustu átta mínútur hálfleiksins 6-2. Arnór skoraði eitt mark í fyrri hálfleik en átti fimm stoðasendingar þar á meðal fjórar niður í hornið á Danann Anders Eggert sem var kominn með sjö mörk í hálfleik.

Björgvin Páll Gústavsson er enn frá vegna veikinda og var því ekki leikmannahóp Magdeburg í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×