Samkvæmt enskum fjölmiðlum hefur Oscar Pistorius fengið grænt ljós frá forráðamönnum Alþjóðaíþróttasambands fatlaðra til að keppa á HM í Frakklandi í sumar.
Pistorius var fyrr í vetur ákærður fyrir að bana kærustu sinni en réttarhöldin yfir honum fara fram síðar á þessu ári.
HM fer fram í júlí næstkomandi og ekkert því til fyrirstöðu að Pistorius skrái sig sem leiks, annað hvort sem fulltrúi Suður-Afríku eða sem einstaklingur.
Umboðsmaður hans, Peet van Zyl, sagði við enska fjölmiðla að Pistorius væri enn að syrgja kærustu sína en að hann væri áhugasamur um að æfa á nýjan leik.
Pistorius keppti á bæði Ólympíuleikunum og Ólympíumóti fatlaðra í London á síðasta ári. HM ófatlaðra fer fram í Moskvu í ágúst og ekki útilokað að Pistorius verði á meðal keppenda þar.

