Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sáust í Krónunni í Mosfellsbæ snemma í morgun.
Þar voru þeir að versla í matinn áður en þeir héldu út á land þar sem þeir ætla að hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður. Aðstoðarmenn þeirra voru með í för, samkvæmt upplýsingum fréttastofu.
Sigmundur Davíð vildi ekki segja í samtali við fréttastofu hvar þeir ætla að funda í dag, en staðfesti þó að þeir væru farnir út á land.
Sigmundur Davíð gaf það út í gær að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn ætluðu að freista þess að mynda ríkisstjórn saman.

