Baltasar Kormákur hratt af stað skandinavísku spennumyndaæði í Bandaríkjunum samkvæmt The New York Times, en blaðið fjallaði ítarlega um Baltasar á dögunum.
Eftir að Mýrin kom út í Bandaríkjunum árið 2007 undir nafninu „Jar City“ fór af stað skandinavísk spennumyndabylgja og slógu myndir sem byggðar voru á bókum Stieg Larson meðal annars rækilega í gegn. Baltasar veltir nú fyrir sér að endurgera Mýrina fyrir amerískan markað.
,,Já, þetta var byrjunin á þessu æði, Mýrin var fyrsta skandinavíska spennumyndin sem kom út í Bandaríkjunum og kom bylgjunni af stað“, segir Balti við blaðamann the New York Times.
Í viðtalinu er gefið í skyn að Baltasar láti velgengnina í Hollywood ekki stíga sér til höfuðs og sé mjög jarðbundinn. Þessa dagana vinnur hann að kvikmyndinni „2 Guns“ sem skartar stórleikurunum Mark Walhberg og Denzel Wazington í aðalhlutverkum og er væntanleg í sumar.
Baltasar segir í viðtalinu að hann hafi ekki áhuga á að ,,sitja við einhverja sundlaug og sniffa kókaín“ á meðan hann bíður eftir tækifærunum. Hann sé maður sem láti verkin tala. ,,Ef 2 Guns verður síðasta myndin sem ég geri í Ameríku myndi ég aldrei sjá eftir því að hafa stokkið á tækifærið. Ég myndi bara halda áfram að gera það sem ég geri“, segir hann hispurslaus.
