Kvikmyndin Prince Avalanche, sem er endurgerð myndarinnar Á annan veg, fékk mjög góðar viðtökur þegar hún var frumsýnd á Sundance-hátíðinni í Utah á sunnudaginn.
Mikill áhugi er meðal dreifingaraðila á að sýna myndina víða um heim og uppselt er á allar sýningar hennar á Sundance.
Viðstaddir frumsýninguna voru Hafsteinn Gunnar Sigurðsson, leikstjóri Á annan veg, og fjórir íslenskir framleiðendur myndarinnar. Einnig voru þar staddir David Gordon Green, leikstjóri endurgerðarinnar, og Hollywood-stjörnurnar Paul Rudd og Emile Hirsch sem leika aðalhlutverkin. Framleiðendur Prince Avalanche voru einnig viðstaddir sýninguna, þar á meðal Danny McBride, aðalleikari sjónvarpsþáttanna vinsælu Eastbound And Down.
Prince Avalanche hefur fengið góða dóma í hinum virtu kvikmyndatímaritum Variety og Hollywood Reporter. Í dómi Variety segir að hin yndislega lágstemmda Á annan veg hafi verið víkkuð út og sé jafnvel enn skemmtilegri í þessari endurgerð. Samleikur Rudd og Hirsch sé góður og myndin sé ánægjuleg karakterstúdía. Blandan af gríni og alvöru ætti að tryggja myndinni góða dóma og þá aðsókn sem hún á skilið.
Í Hollywood Reporter segir að leikstjórinn David Gordon Green hafi tekið sér hlé frá stærri verkefnum og snúið aftur í ræturnar með þessari afar vel gerðu mynd um skrítið tvíeyki sem veltir fyrir sér ýmsum tilvistarlegum spurningum.
