„Ég hef verið í skýjunum síðan ég fékk símtalið,“ segir Guðmundur Arnar Guðmundsson leikstjóri en stuttmynd hans, Hvalfjörður, er ein af níu myndum sem keppa um Gullpálmann í Cannes í maí.
Myndin er frumraun Guðmundar í leiknu efni. Hann sá um leikstjórn, handritsgerð og framleiðslu ásamt Antoni Mána Svavarssyni. „Þetta var alltaf markmiðið en það er ekki gefið að komast í gegnum þetta nálarauga,“ segir Guðmundur en 3.500 myndir frá 132 löndum voru sendar inn í keppnina.
Guðmundur ætlar að fylgja myndinni til Cannes. Rúnar Rúnarsson er meðframleiðandi myndarinnar, ásamt Dönunum Darin Mailand-Mercado og Jacob Oliver Krarup. „Þetta er skemmtilegur sirkús. Við stefnum á að frumsýna myndina í kjölfarið á Íslandi.“
Keppir um Gullpálmann
Álfrún Pálsdóttir skrifar
