Matur

Helgarmaturinn-Eggaldin með mozzarella og parmesan

Marín Manda skrifar
Angantýr Einarsson er hrifinn af ítölskum mat.
Angantýr Einarsson er hrifinn af ítölskum mat.

Angantýr Einarsson skrifstofustjóri fjármálaráðuneytisins er mikill áhugamaður um mat og eldamennsku og deilir hér uppskrift þar sem öllum helstu ítölsku hráefnunum er blandað saman svo úr verður sérlega bragðgóður og þjóðlegur ítalskur réttur.

Hráefni

5 tómatar

1 lítill laukur

2 hvítlauksgeirar

100 ml rauðvín

Grænmetiskraftur

Salt og pipar

Óreganó-þurrkrydd

1 meðalstórt eggaldin

1 stór kúla mozzarella-ostur

Fersk basilikulauf (hálf askja)

Rifinn parmesanostur (u.þ.b. hálfur)

Tómatsósa

Saxið lauk og hvítlauk og léttsteikið á pönnu. Skerið tómatana í litla bita og bætið út í, ásamt rauðvíni, grænmetiskrafti og matskeið af óreganói.

Saltið og piprið eftir eigin bragðlaukum. Látið malla í um 5 mínútur og hellið í eldfast mót. Skerið eggaldin í 0,5 til 1 cm þykkar sneiðar og steikið upp úr ólífuolíu í um hálfa mínútu á hvorri hlið.

Leyfið aldininu að draga í sig olíuna. Saltið og piprið (ekki nauðsynlegt). Leggið sneiðarnar ofan á tómatsósuna.

Ostar og basilika. Skerið mozzarella-ostinn í þunnar sneiðar og leggið ofan á eggaldinið. Stráið parmesanostinum yfir og bakið í 200 gráðu heitum ofni þar til osturinn er orðinn fallega brúnn. 

Saxið basilikulauf og stráið yfir eftir að rétturinn hefur verið tekinn úr ofninum. Berið fram með fallegu salati.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.