Vertíðarbrjálæði virkar illa Mikael Torfason skrifar 25. júlí 2013 07:00 Aldrei hafa fleiri ferðamenn heimsótt Ísland en í ár. Ef fer sem horfir nær ferðamannafjöldinn milljón á næstu tveimur árum. Þetta liggur fyrir og hefur margoft komið fram. Sem gerir augljóst fyrirhyggjuleysi sem einkennir viðbrögð okkar við þessum mikla ferðamannastraumi þeim mun grátlegra. Í stað þess að undirbúa og gaumgæfa hvernig við ætlum að taka á móti þessum mikla fjölda, og vinna þá markvisst út frá því, einkennast viðbrögðin miklu fremur af eins konar gullæði. Allir ætla sér að græða á túrismanum meðan náttúruperlur verða fyrir átroðningi. Sé litið til bráðavanda þá vita björgunarsveitir ekki hvernig þær eiga að mæta öllum þessum fjölda og vegir úti á landi ráða tæpast við aukna umferð. Reglulega má lesa sögur í fjölmiðlum um ferðafólk sem í sakleysi sínu villist upp á hálendi og á jafnvel ekki afturkvæmt. Björgunarsveitir horfa fram á fleiri útköll og hafa bjargað því sem bjargað verður. Fyrir horn. Því í raun er það fremur til marks um heppni en fyrirhyggjusemi að ekki hefur oftar farið verr á hálendinu. Dæmi um það geta verið takmarkaðar merkingar sem ekki taka mið af ferðamönnum sem ekki þekkja til veðra og vinda á Íslandi. Þannig eru mörg dæmi þess að íslenskt fjallafólk hafi hitt illa búið fólk við rætur jökla á bílaleigubílum en saklaust hefur það álpast á þær slóðir vegna lélegra merkinga og er í raun í stórhættu. Í reynd ríkir ófremdarástand og fáar vísbendingar eru um að við ætlum að bregðast við þeirri stöðu sem allir gera sér þó grein fyrir að er uppi. Vitaskuld er ekkert að því að landsmenn vilji njóta góðs af þessari atvinnugrein sem kölluð hefur verið hin nýja stóriðja. Hagsmunir okkar eru miklir en talið er að ferðamannaiðnaðurinn velti hundruðum milljarða króna. En, hættir veiðimannasamfélagsins – uppgrip og vertíðarbrjálæði – eiga illa við þegar þessi grein er annars vegar. Stærsta hættan snýr að náttúrunni sjálfri. Með því að vernda ekki náttúruna fyrir átroðningi, sem er það sem helst dregur ferðamenn til landsins, liggur fyrir að verið er að slátra gullhænunni í þessum efnum. Þá verður þetta skammvinnt ævintýri. Verra er þó ef óafturkræfar skemmdir á náttúrunni verða. Flest bendir til að sú hætta sé raunveruleg. Segja verður þessa sögu alveg eins og hún er: Eftiráviðbrögð eru nokkuð sem einkennir okkur Íslendinga. Ekki síst ef litið er til lagasetninga. Við viljum helst byrgja brunninn eftir að barnið er dottið ofan í hann. Þó það sé sameiginleg ábyrgð landsmanna að vernda landið, standa vörð um það og helst skila því betra til komandi kynslóða, þá verður að horfa til hins opinbera varðandi ábyrgð í þessum efnum. Alþingi hefur þegar sett 500 milljónir í uppbyggingu á fjölförnum ferðamannastöðum. Þeir sem til þekkja segja það einungis plástur, brot af því sem þarf til að bregðast við aukinni umferð. Taka verður undir ákall náttúruverndarsinna þess efnis að fé til að verja landið verði aukið og að aðkallandi aðgerðir í þeim efnum verði markvissar og skilvirkar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Mikael Torfason Mest lesið Skilum skömminni Elín Birna Olsen Skoðun Getur þú fengið þá hjálp sem þú þarft ef andlega heilsan hrörnar? Sigurrós Eggertsdóttir Skoðun Gekk ég yfir sjó og land og ríkisstofnanir líka Magnús Guðmundsson Skoðun Teppaleggjum ekki íslenska náttúru með vindorku Halla Hrund Logadóttir Skoðun Reynir Samband sveitarfélaga að spilla gerð kennarasamninga? Ragnar Þór Pétursson Skoðun Halldór 23.11.2024 Halldór Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun „Við andlát manns lýkur skattskyldu hans“ Þórður Gunnarsson Skoðun Hefur sálfræðileg meðferð áhrif á líkamlegt heilbrigði? Rúnar Helgi Andrason Skoðun Miskunnsami nýmarxistinn Kári Allansson Skoðun
Aldrei hafa fleiri ferðamenn heimsótt Ísland en í ár. Ef fer sem horfir nær ferðamannafjöldinn milljón á næstu tveimur árum. Þetta liggur fyrir og hefur margoft komið fram. Sem gerir augljóst fyrirhyggjuleysi sem einkennir viðbrögð okkar við þessum mikla ferðamannastraumi þeim mun grátlegra. Í stað þess að undirbúa og gaumgæfa hvernig við ætlum að taka á móti þessum mikla fjölda, og vinna þá markvisst út frá því, einkennast viðbrögðin miklu fremur af eins konar gullæði. Allir ætla sér að græða á túrismanum meðan náttúruperlur verða fyrir átroðningi. Sé litið til bráðavanda þá vita björgunarsveitir ekki hvernig þær eiga að mæta öllum þessum fjölda og vegir úti á landi ráða tæpast við aukna umferð. Reglulega má lesa sögur í fjölmiðlum um ferðafólk sem í sakleysi sínu villist upp á hálendi og á jafnvel ekki afturkvæmt. Björgunarsveitir horfa fram á fleiri útköll og hafa bjargað því sem bjargað verður. Fyrir horn. Því í raun er það fremur til marks um heppni en fyrirhyggjusemi að ekki hefur oftar farið verr á hálendinu. Dæmi um það geta verið takmarkaðar merkingar sem ekki taka mið af ferðamönnum sem ekki þekkja til veðra og vinda á Íslandi. Þannig eru mörg dæmi þess að íslenskt fjallafólk hafi hitt illa búið fólk við rætur jökla á bílaleigubílum en saklaust hefur það álpast á þær slóðir vegna lélegra merkinga og er í raun í stórhættu. Í reynd ríkir ófremdarástand og fáar vísbendingar eru um að við ætlum að bregðast við þeirri stöðu sem allir gera sér þó grein fyrir að er uppi. Vitaskuld er ekkert að því að landsmenn vilji njóta góðs af þessari atvinnugrein sem kölluð hefur verið hin nýja stóriðja. Hagsmunir okkar eru miklir en talið er að ferðamannaiðnaðurinn velti hundruðum milljarða króna. En, hættir veiðimannasamfélagsins – uppgrip og vertíðarbrjálæði – eiga illa við þegar þessi grein er annars vegar. Stærsta hættan snýr að náttúrunni sjálfri. Með því að vernda ekki náttúruna fyrir átroðningi, sem er það sem helst dregur ferðamenn til landsins, liggur fyrir að verið er að slátra gullhænunni í þessum efnum. Þá verður þetta skammvinnt ævintýri. Verra er þó ef óafturkræfar skemmdir á náttúrunni verða. Flest bendir til að sú hætta sé raunveruleg. Segja verður þessa sögu alveg eins og hún er: Eftiráviðbrögð eru nokkuð sem einkennir okkur Íslendinga. Ekki síst ef litið er til lagasetninga. Við viljum helst byrgja brunninn eftir að barnið er dottið ofan í hann. Þó það sé sameiginleg ábyrgð landsmanna að vernda landið, standa vörð um það og helst skila því betra til komandi kynslóða, þá verður að horfa til hins opinbera varðandi ábyrgð í þessum efnum. Alþingi hefur þegar sett 500 milljónir í uppbyggingu á fjölförnum ferðamannastöðum. Þeir sem til þekkja segja það einungis plástur, brot af því sem þarf til að bregðast við aukinni umferð. Taka verður undir ákall náttúruverndarsinna þess efnis að fé til að verja landið verði aukið og að aðkallandi aðgerðir í þeim efnum verði markvissar og skilvirkar.