Þórhildur Ýr Arnardóttir starfar á vökudeild Landspítalans og er að vinna að lokaritgerð sinni í félagsfræði. Hún er einnig tveggja barna móðir og hefur mikinn áhuga á eldamennsku og deilir hér girnilegum kjúklingarétti með sólþurrkuðum tómötum.
4 kjúklingabringur
1 laukur
8 sveppir
2 gulrætur
6 sólþurrkaðir tómatar
1 kjötkraftur
½ dós af rjómaosti með sólþurrkuðum tómötum
½ dós af rjómaosti með pipar
matreiðslurjómi
Kjúklingabringurnar eru kryddaðar með salti og svörtum pipar og steiktar upp úr olíu af sólþurrkuðum tómötum. Þær eru svo settar í eldfast mót.
Annað er skorið niður og steikt á pönnu. Svo bæti ég við kjötkraftinum, rjómaostinum með sólþurrkuðum tómötunum, rjómaostinum með piparnum og matreiðslurjóma (u.þ.b. hálfri fernu) og læt þetta malla í smástund.
Eftir það er þessu öllu hellt yfir bringurnar í eldfasta mótinu og svo er það sett inn í ofn á 200°C í um 30 mínútur.
Ómissandi er að hafa gott salat með, t.d. kál, rauða papriku, avókadó, jarðarber og fetaost.