„Danssamfélagið á Íslandi er lítið og við erum ekki margar enn starfandi af svokallaðri eldri kynslóð dansara þannig að þegar Lára kom til mín og bað mig að taka þetta verkefni að mér þótti mér mikill heiður að fá að skoða söguna okkar,“ segir Helena Jónsdóttir, höfundur Tíma sem samið var sérstaklega í tilefni af fjörutíu ára afmæli Íslenska dansflokksins.
Helena hefur verið viðloðandi dansflokkinn í 33 ár, sitt hvorum megin við landamærin, eins og hún orðar það. „Ég var í Listdansskóla Þjóðleikhússins frá tólf ára aldri og þá tók maður oft þátt í sýningum flokksins. Þegar náminu lauk gekk ég í dansflokkinn í stuttan tíma. Síðan urðu stórar breytingar á flokknum og ég hætti. Ég hef samt alltaf verið þarna með annan fótinn, þetta er eins og lítil fjölskylda og maður yfirgefur ekki fjölskyldu sína.“

Sviðsmyndin er baksviðið þar sem dansararnir eru að vinna sína vinnu. „Dansarar vinna klukkutímum, vikum og mánuðum saman að því einu að deila hjarta sínu í fjörutíu og fimm mínútur með áhorfendum,“ segir Helena. „Þannig að í þessari sýningu kíkjum við á bak við tjöldin og fáum innsýn inn í heim dansarans.“