Leikurinn fór fram á heimavelli HK í Fagralundi og vann HK hrinurnar 25-22, 25-17 og 25-17. Þetta er annað árið í röð sem HK verður deildarmeistari en Kópavogsliðið varð einnig bæði Íslands- og bikarmeistari á síðustu leiktíð.
Stefán Jóhannsson, varaformaður BLÍ, afhenti liði HK deildarmeistarabikarinn í leikslok. Elsa Sæný Valgeirsdóttir er þjálfari strákanna.
Seinna um kvöldið hélt kvennaliðið upp á árangur strákanna með því að vinna 3-0 sigur á Stjörnunni. HK er nú í 2. sæti deildarinnar á eftir Aftureldingu en þessi lið munu eigast við í Fagralundi á föstudaginn í næstu viku og þar má búast við æsispennandi leik.
Afturelding er efst með 32 stig, HK-konur koma næstar með 28 stig og Þróttur Nes þar á eftir með 27 stig. Afturelding og HK eiga 3 leiki eftir en Þróttur fjóra.
