Hvöt, félag sjálfstæðiskvenna í Reykjavík, hefur sent tölvupóst á alla félagsmenn þar sem sjálfstæðiskonur eru hvattar til að leggja sitt á vogarskálarnar í kosningabaráttunni í dag og morgun.
Samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum fær Sjálfstæðisflokkurinn þrjá karlmenn kjörna í Reykjavík en enga konu. Áslaug María Friðriksdóttir skipar fjórða sæti listans og eru félagsmenn uggandi yfir því að engin sjálfstæðiskona eigi lengur sæti sitt víst í borgarstjórn.
„Baráttan snýst um að ná inn sjálfstæðiskonum í borgarstjórn. Staðreyndin er sú að hvert einasta atkvæði skiptir máli nú sem aldrei fyrr,“ segir í póstinum og eru sjálfstæðiskonur hvattar til að að taka höndum saman og tryggja að allir mæti á kjörstað.
Er þeim boðið að nýta sér hringikerfi í Valhöll eða á kosningamiðstöðvum flokksins til að tryggja „konunum þeirra sæti í borgarstjórn.“
Póstinn sem sjálfstæðiskonur í Reykjavík fengu má sjá hér að neðan.
Á morgun laugardaginn 31. maí er kosið til borgarstjórnar. Ljóst er að við þurfum nauðsynlega á hverri einustu ykkar að halda í kosningabaráttunni í dag og á morgun.
Baráttan snýst um að ná inn sjálfstæðiskonum í borgarstjórn. Staðreyndin er sú að hvert einasta atkvæði skiptir máli nú sem aldrei fyrr. Látum það ekki gerast að engin sjálfstæðiskona verði í borgarstjórn í Reykjavík.
Nú þarf að hringja og tala við vini og vandamenn!
Öllu máli skiptir að við tökum höndum saman og hringjum í vini og vandamenn og tryggjum að fólkið okkar fari á kjörstað. Þetta er það mikilvægasta sem hver okkar getur lagt að mörkum. Hvert einasta símtal skiptir miklu máli.
Tryggjum konunum okkar sæti í borgarstjórn!
Hringikerfi er í Valhöll eða á kosningamiðstöðvum flokksins ef þið viljið nýta ykkur það.
Allar upplýsingar er að finna á vefnum xdreykjavik.is
Hvöt félag sjálfstæðiskvenna í Reykjavík.
