Myndstef sendi honum póst í hádeginu í dag þar sem segir að ábyrgðaraðili fyrir Starafugli, sem er Eiríkur, hafi af gögnum málsins að dæma ekki haft leyfi fyrir notkun myndarinnar. Þar er vísað til höfundalaga og einkaréttar höfunda til notkunar verka sinna. Í póstinum er Eiríki gert að hafa samband við Myndstef innan viku en ella áskilur Myndstef sér rétt til að gefa út reikning vegna notanna. „Að auki getur Myndstef krafist lögbanns á notkunina og skaðabóta því tengdu.”
Eiríkur veit ekki hvernig hann á að snúa sér í málinu og hefur biðlað til lögfróðra vina sinna á Facebook um aðstoð.
„Myndin er merkt höfundi og hafði áður birst í fjölmiðlum, með umfjöllun um Sölva,“ segir hann í stöðuuppfærslu.
„Í greininni er fyrirbærið Sölvi Fannar til umfjöllunar, ímyndin einsog hún birtist á þessari mynd. Það var minn skilningur að þar með væri notkun myndarinnar innan rammans – eins og hvert annað plötukover,“ segir hann jafnframt og spyr hvort að hann ætti að „lúffa“ eins og hann orðar það eða láta reyna á hvort að þetta sé réttmætt.

En myndin sem um ræðir hefur birst víðsvegar í fjölmiðlum að undanförnu og vakti athygli. Myndina tók ljósmyndarinn Ásgeir Ásgeirsson, sem gengur undir nafninu Geirix. Hann innheimtir ekki sjálfur heldur sér Myndstef um það fyrir hönd ljósmyndara þeirra sem þeir eru með á sínum snærum. „Hún er gefin út fyrir mína hönd. Ef mynd er notuð án leyfis þá er innheimta.“ Hann segir lögin um höfundarétt vera skýr. „Ljósmynd, eða hvaða myndverk sem það er, er alltaf eign höfundar og myndrétturinn er eign höfundar.“ Hann segir þetta alltaf munu vera þannig enda mikilvægt fyrir listamenn. „Annars getum við bara lagt niður listsköpun í landinu.“
Eiríkur Örn taldi hins vegar myndina vera undirorpna því sem kallast „fair use“ sem gætu útlagst á íslensku sanngjörn notkun. „Þessi mynd er sú sem kom honum á kortið,“ útskýrir Eiríkur Örn í samtali við Vísi og segir hana vera stóran hluta af því hvernig hann kynnir sig og sín verk. „Það að ætla að fjalla um hann án þess að geta birt myndina er kjánalegt. Þá ertu bara með brot af sögunni.“
Eiríkur segir sektina ekkert gríðarháa þó. „En vefurinn er unninn í sjálfboðavinnu og ég er þegar að borga með honum,“ bætir hann við.