„Gylfi heldur áfram að gefa og gefa," sagði Guðmundur Benediktsson í upphafi umfjöllunarinnar og Hjörvar Hafliðason tók boltann á lofti. „Hann er gjöf sem heldur áfram að gefa. Það eina leiðinlega sem maður getur sagt er að hann virðist vera meiddur," sagði Hjörvar Hafliðason.
Messan fór vel yfir leik Swansea og Leicster um helgina þar sem Gylfi átti stóran þátt í báðum mörkum Swansea-liðsins en Wilfried Bony skoraði þau bæði.
„Þeir passa vel saman hann og Bony," sagði Magnús Már Einarsson, ritstjóri fótbolti.net, sem var gestur í þættinum í gær og Guðmundur Benediktsson var fljótur að bæta við: „Ég held að leikmenn passi bara vel við Gylfa."
Hér fyrir neðan má sjá alla umfjöllun Messunnar um frammistöðu Gylfa gegn Leicester um helgina.