„Jú, það er auðvitað heiður að þeir hafi haft samband við mig og viljað fá mig í vinnu,“ segir Hulda Halldóra Tryggvadóttir stílisti sem er á leiðinni á tískuvikuna í París í næstu viku til að vinna fyrir tískuhúsið Kenzo.
Hulda var fengin til að stílisera tískuþátt fyrir vefsíðu Kenzo síðastliðið haust sem lagðist svo vel í aðstandendur tískumerkisins að þeir buðu henni þetta tækifæri í kjölfarið.
„Ég verð að vinna við að klæða fyrirsæturnar baksviðs fyrir sýninguna sem verður skemmtileg upplifun en þetta er í fyrsta sinn sem ég fer á tískuvikuna í París. Ég er mikill aðdáandi Kenzo,“ segir Hulda en sýningin sjálf fer fram 2. mars.
Tískuvikan í París er ein sú stærsta í heimi þar sem mörg frægustu fatamerkin sýna haust- og vetrartískuna 2014. Kenzo hefur verið á mikilli uppsveiflu undanfarin misseri eftir að hönnunartvíeykið Carol Lim og Humberto Leon tóku við keflinu sem aðalhönnuðir merkisins.
Hulda starfar sem stílisti og þrátt fyrir að vera á leiðinni í hringiðu tískubransann heillar ekki að starfa þar til frambúðar.
„Ég stefni á frekara nám í búningahönnun. Kvikmyndir og sjónvarp heilla meira en tískuheimurinn í augnablikinu.“

