Lífið

ATP og Secret Solstice með þeim bestu í Evrópu

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Tómas Young, skipuleggjandi ATP-hátíðarinnar er ánægður með að komast á lista með nokkrum af þekktustu tónlistarhátíðum heims.
Tómas Young, skipuleggjandi ATP-hátíðarinnar er ánægður með að komast á lista með nokkrum af þekktustu tónlistarhátíðum heims. visir/vilhelm
Tvær tónlistarhátíðir sem fram fara á Íslandi í sumar eru á lista yfir topp tíu tónlistarhátíðir í Evrópu í sumar, þetta kemur fram á hinni virtu tónlistarheimasíðu Consequence of Sound.

Um er að ræða tónlistarhátíðirnar ATP-hátíðina sem fram fer á Ásbrú í Keflavík dagana 10. til 12. júlí og Secret Solstice-hátíðina sem fram fer 20. til 22. júní í Laugardalnum í Reykjavík.

ATP er í sjöunda sæti listans og Secret Solstice er í tíunda sæti listans. „Það er mjög gaman að vera kominn á lista með svona stórum hátíðum. Þetta er mjög skemmtileg viðurkenning,” segir Tómas Young, skipuleggjandi ATP-tónlistarhátíðarinnar, en á sama lista má finna hátíðir á borð við Hróarskelduhátíðina í Danmörku sem er í þriðja sæti, Glastonbury á Bretlandi í öðru sæti og Primavera Sound í Barcelona sem er í fyrsta sæti listans.

Hljómsveitin Portishead kemur fram á ATP-hátíðinni í sumar.mynd/einkasafn
Tómas segist þekkja til þessarar virtu síðu. „Þetta er nokkurs konar tónlistarblogg þar sem tónlist og tónlistarviðburðir fá umfjöllun,“ bætir Tómas við.

Mikil aðsókn er að ATP-hátíðinni en að sögn Tómasar eru um 1.300 erlendir gestir væntanlegir á hátíðina. Helstu hljómsveitir á ATP eru Portishead, Interpol og Mogwai svo nokkrar séu nefndar. Á Secret Solstice koma fram hljómsveitir á borð við Massive Attack, Schoolboy Q og Disclosure svo nokkrar séu nefndar. Þá kemur fram fjöldi íslenskra hljómsveita á báðum hátíðunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.