Hér er á ferðinni dæmigerð núðlusúpa með taílensku yfirbragði nema ég nota íslenska grænmetið í staðinn fyrir núðlurnar. Fyrir íhaldssama má auðvitað bara bæta núðlum út í áður en súpan er borin fram,“ útskýrir Oddrún Helga Símonardóttir, en hún skellti í rjúkandi kjúklingasúpu með glænýju íslensku grænmeti fyrir lesendur.
Oddrún heldur úti matarblogginu heilsumamman.com þar sem hún deilir hollum og girnilegum uppskriftum. Þessa súpu segir hún afar þægilega í kvöldmat fjölskyldunnar.
„Súpan er mjög fljótleg og getur verið komin á borðið 20 mínútum eftir að undirbúningur hefst, ef kjúklingurinn er tilbúinn, en hún verður samt enn betri ef hún fær að standa aðeins eftir að hún er tilbúin.“

Sweet chili-kjúklingasúpa úr glænýju íslensku grænmeti fyrir 4 - 5
1 tsk. kókosolía
3-4 gulrætur
½ hvítkálshaus
½ rauð paprika
½-1 haus spergilkál
(eftir stærð og smekk)
2 cm bútur af engifer eða
u.þ.b. 1 msk. rifinn engifer
3 msk. kjúklingakraftur
1 msk. fiskisósa
1 msk. sweet chili sósa
Salt og pipar
2 kjúklingabringur eða magn
eftir smekk.
1.5 l vatn
Aðferð:
1. Skerið bringurnar í bita. Steikið á pönnu og kryddið eftir smekk eða grillið þær heilar. Þessi súpa er tilvalin fyrir afganga.
2. Hitið kókosolíu í potti og léttsteikið gulrætur og papriku.
3. Rífið engiferið út í pottinn. (Ef þið rífið það með rifjárni losnið þið við „hárin“.
4. Bætið við vatni, kjúklingakrafti, fiskisósu og sweet chili-sósu. Reynið að velja sósu með litlu sykurmagni en hér má líka nota 1 msk. af hlynsírópi eða 1 msk. af kókospálmasykri og krydda með smá chili-kryddi.
5. Bætið hvítkálinu og spergilkálinu út í og leyfið súpunni að malla í 10 mín.
6. Bragðbætið með salti og pipar.
Það er gott að bera súpuna fram með smátt söxuðum vorlauk, fersku kóríanderi og jafnvel salthnetum eða kasjúhnetum.