Blaðamaðurinn Kenji Goto var handsamaður af vígamönnum Íslamska ríkisins, eftir að hann fór til Sýrlands til að kanna hvort hann gæti náð Haruna Yukawa úr haldi samtakanna. Japanarnir Kenji Goto og Haruna Yukawa eru nú í haldi Íslamska ríkisins og ISIS hefur hótað að taka þá af lífi borgi ríkistjórn Japan þeim ekki 200 milljónir dala, eða tæpa 27 milljarða króna.
Mennirnir tveir hittust fyrst í Sýrlandi í apríl í fyrra. Þá bað Yukawa blaðamanninn um að fara með sig til Írak, þar sem hann vildi öðlast reynslu af átakasvæðum. Hann hefur lengi dreymt um að verða málalið og hefur átt við geðræn vandamál að stríða.
Sjá einnig: „Japan mun ekki láta undan hótunum hryðjuverkamanna“
„Hann var bjargarlaus og vissi ekki hvað hann var að gera. Hann þurfti hjálp einhvers sem hefur reynslu,“ sagði Goto við Reuters fréttaveituna í Ágúst.
Goto fór hinsvegar aftur til Japan í júlí í fyrra og þá fór Yukawa aftur til Sýrlands. Í ágúst birtist myndband af honum á Youtube, þar sem hann var í haldi vígamanna. Það hafði mikil áhrif á Goto, sem fannst hann að einhverju leyti bera ábyrgð á Yukawa.
„Ég þarf að fara þangað aftur til ræða við tengiliði mína og spyrja þá hvert ástandið sé. Ég þarf að tala við þá maður á mann og held að það sé nauðsynlegt,“ sagði Goto.
Hann sneri aftur til Sýrlands í október og skömmu eftir að eiginkona hans eignaðist annað barn þeirra. Hann ætlaði að fara aftur til Japan í lok mánaðarins, en hafði ekki sést síðan hann birti stutt myndband á Twitter í lok október.
„Hvað sem gerist. Þá er þetta mín ábyrgð,“ sagði hann í myndbandinu.
Erlent