Lífið

Thomas Lundin sannfærður um að Ísland komist áfram

Atli Ísleifsson skrifar
Thomas Lundin segir að atriðið hafi minnt á sigurlag Dana frá 2013. Hann segist þó ekki viss um að það sé af hinu góða.
Thomas Lundin segir að atriðið hafi minnt á sigurlag Dana frá 2013. Hann segist þó ekki viss um að það sé af hinu góða. Vísir/Þórdís Inga/Jonas Norén
Finnski söngvarinn og Eurovision-sérfræðingurinn Thomas Lundin segist í samtali við Vísi sannfærður um að Ísland komist áfram á undanúrslitakvöldi Eurovision í Vínarborg í maí. Hann segist einnig þora að lofa því að Ísland muni ekki standa uppi sem sigurvegari keppninnar.

Thomas vakti mikla athygli í þáttum sænska ríkissjónvarpsins (SVT) fyrir nokkrum árum þar sem fulltrúar frá öllum Norðurlöndunum komu saman til að hlusta á og ræða framlögin í söngvakeppninni. Eiríkur Hauksson var fulltrúi Íslendinga í þáttunum.

Thomas segir að þrátt fyrir að hann telji að Íslendingar eigi ekki möguleika á sigri þá þýði það ekki að honum þyki lagið Unbroken vera slæmt. „Mér finnst lagið vera nútímalegt og klassískt á sama tíma. Með sterkara viðlagi hefði það getað farið hvað langt sem er. Ég er þó viss um að lagið komist upp úr undanúrslitum.“

Hann segir Maríu Ólafsdóttur vera með stórkostlega rödd og að hún hafi staðið sig mjög vel á sviðinu síðastliðinn laugardag. „Eitthvað í flutningnum á sviðinu fékk mig til að hugsa um framlag Danmerkur sem vann keppnina árið 2013. Ég veit þó ekki hvort það sé af hinu góða. Ég hefði frekar veðjað á sviðsframkomu sem sé meira 2015, það er sleppa söguþemanu.“

Thomas segir að af þeim lögum sem þegar sé ljóst að taki þátt í Vínarborg í maí þá sé hann enn ekki með neitt uppáhaldslag. „Framlag Íslands er þó með þeim allra bestu enn sem komið er. Persónulega fannst mér íslenska lagið betra þegar það var flutt á íslensku, sem er jú fallegasta tungumál þeirra ríkja sem taka þátt í Eurovision. Annars hugsa ég að ítalska lagið verði sterkt í ár. Hljómsveitin sem mun flytja þeirra framlag er mjög góð. Ég vona bara að þeir finni gott lag fyrir þá til að flytja.“

Vísir átti að skila bestu kveðjum til allra vina Thomas hér á landi.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.