Breiðablik hefur samið við bosníska framherjann Ismar Tandir.
Tandir, sem er tvítugur, hefur dvalið við æfingar og keppni hjá Breiðabliki undanfarnar tvær vikur. Hann skrifaði undir tveggja ára samning við Kópavogsliðið sem endaði í 7. sæti Pepsi-deildarinnar í fyrra.
Tandir, sem er 1,96 m á hæð, fæddist í Þýskalandi en ólst upp í New Jersey í Bandaríkjunum. Hann hefur verið á mála hjá yngri liðum New York Red Bulls og Sochaux í Frakklandi en kemur til Blika frá bandaríska liðinu Sacramento Republic.
Tandir, eða Izzy eins og hann er gjarnan kallaður, hefur leikið með öllum yngri landsliðum Bosníu, en foreldrar hans eru þaðan.
Blikar hafa misst tvo framherja í vetur, Árna Vilhjálmsson og Elfar Árna Aðalsteinsson, og því er Tandir kærkomin viðbót í lið Breiðabliks sem sækir Fylki heim 3. maí, í fyrsta leik sínum í Pepsi-deildinni í ár.
