Lífið

Ásmundur Einar mætti í jakkafötum úr grænu gardínuefni

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins, segist sjálfur hafa hannað fötin.
Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins, segist sjálfur hafa hannað fötin. Mynd/Karl Garðarsson
Þingmaðurinn Ásmundur Einar Daðason vakti meiri athygli en flestir aðrir á flokksþingshófi Framsóknarflokksins sem haldið var í gærkvöldi. Hann mætti í sérsniðnum jakkafötum sem saumuð eru úr grænu gardínuefni, að eigin sögn.

„Þau eru saumuð erlendis úr fallegu gardínuefni,“ segir hann aðspurður um hvaðan fötin eru. Ásmundur segist sjálfur hafa hannað fötin. „Þetta var nú bara til gamans gert.“

Ásmundur segir að fötin hafi hann notað í fyrsta sinn á þingflokkshófinu í gærkvöldi en þau hafi þó ekki verið saumuð sérstaklega fyrir viðburðinn. „Þetta er nú bara hluti af fötum í einkasafni,“ segir hann kíminn.

Getum við átt von á að sjá Ásmund í fötunum á Alþingi á næstunni? „Já á einhverjum góðum hátíðisdegi þá verð ég að mæta í þeim.“

Fötin vöktu mikla athygli en þingkonan Vigdís Hauksdóttir skrifaði um þau á Facebook-síðu sína í gærkvöldi: „Páll Óskar má fara að passa tískulögguna þegar Ásmundur Einar er annars vegar.“

Annar þingmaður Framsóknarflokksins, Karl Garðarsson, birti einnig mynd á Facebook þar sem hann sagði Ásmund vera í nýjum einkennisbúningi Framsóknarflokksins.







Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.