Komma á röngum stað Guðmundur Andri Thorsson skrifar 20. apríl 2015 11:34 Ýmsum þótti mannsbragð að því hjá Kristjáni Loftssyni að mæta sjálfur í Ríkisútvarpið til að ræða um 33% hækkun á launum til stjórnarmanna í Granda, sem samþykkt var samhljóða af fulltrúum hluthafa - líka fulltrúum lífeyrissjóðanna á meðan starfsfólki (sem á lífeyrissjóðina) er boðin 3,3% launahækkun. 33% - 3,3%. Þetta er Ísland í dag: komma á röngum stað.Hinn frekasti lifir af... En Kristján Loftsson mætti sem sagt í viðtal hjá RÚV, sem mörgum finnst eflaust kjarkað hjá manni með slíkt innlegg í viðkvæmar kjaraviðræður á Íslandi: Ég með mín ofsalaun á að fá tíu sinnum meiri hækkun fyrir ekkert en þið með ykkar skítalaun fyrir streð allan daginn af því að ég er tíu sinnum merkilegri en þið. Hann hafði að vísu ekki ýkja margt að segja annað en að svona væri þetta bara. Og nei, þessu yrði ekki breytt. Hann var á svipinn eins og hér væru að verki náttúrulögmál sem ekki væri á færi dauðlegra manna að hrófla við; hann yppti öxlum og brosti þolinmóðu en ögn tómlátu brosi eins og maður sem beðinn er um að stöðva eldgos. Samt vitum við öll að ekkert myndi svo sem gerast ef hann hætti störfum (annað en að Bandaríkjamenn færu kannski aftur að tala við Íslendinga). En hætti starfsfólk Granda að vinna lamast allt. Líklega er orðið tímabært að að leiða honum og hans kumpánum þetta fyrir sjónir. Já og fólkinu sjálfu: kannski orðið tímabært að almennt verkafólk komist að því hvers virði það er. Kristján Loftsson telur að hin náttúrulega skipan hlutanna sé sú að hann og hans kumpánar eigi allar auðlindir en fjöldinn eigi ekki neitt. Hinn frekasti lifi af. En kláðinn fer aldrei. Honum nægja ekki milljarðarnir sem hann fær til ráðstöfunar - og notar meðal annars til að stunda hvalveiðar í óþökk heimsins, svo að Íslendingar eru ekki hafðir með í ráðum þegar kemur að ákvörðunum um raunveruleg hagsmunamál þeirra, sem snúast um verndun hafsins fyrir losun alls kyns eiturefna. Honum nægja ekki þessir milljarðar sem hann ver svona viturlega - kláðinn hverfur ekki - hann þarf líka tvöhundruð þúsund krónur fyrir að mæta af og til á fundi til þess að náttúrulögmálin geti haft sinn gang. Ein versta vá sem steðjar að íslensku samfélagi er síaukin stéttaskipting, misskipting gæða og verðmæta; auðsöfnun fárra á kostnað fjöldans, undir forystu þeirra hugmyndafræðinga sem finnst ranglætið rétt. Þar hafði kvótakerfið úrslitaáhrif: þegar þáverandi fjórflokkur kom því svo fyrir með lagasetningu að óveiddur fiskur í sjónum sé "eign" tiltekinna manna og fyrirtækja sem selja megi fram og til baka og bókfæra - og veðsetja. Til urðu geysileg verðmæti sem engin innistæða var fyrir; bóla sem blés og blés út með kunnum afleiðingum. Og aftur eru fjármálaskáldin komin af stað og farin að spinna sinn auð án teljandi afskipta veruleikans.Stöðugleiki = misrétti Talsmenn forstjóranna, sem kalla sig Samtök atvinnulífsins, reyna nú af veikum mætti að útskýra fyrir þjóðinni að vernda þurfi stöðugleikann og allt fari í uppnám ef kröfur verkalýðssamtaka um 300.000 króna lágmarkslaun ná fram að ganga. Samt er arður sjávarútvegsfyrirtækjanna brjálæðislegur, ekki síst út af krónunni sem almennt bitnar á þjóðinni að sé ríkjandi gjaldmiðill; og ætti þá arðurinn væntanlega að gagnast þjóðfélaginu í heild, en ekki bara renna í dynti og heimskupör á borð við tómstundaiðju Kristjáns Loftssonar. Þeir vilja telja okkur trú um að tugprósenta launahækkanir til þeirra sjálfra sé náttúrulögmál og gott ef ekki stöðugleikinn sjálfur, en viðlíka hækkanir til almennings raski stöðugleikanum. Stöðugleikinn er bara annað orð yfir misrétti. Ísland er láglaunaland. Lífskjör eru hér verri en víðast hvar í nágrannalöndum okkar og erfitt að útskýra fyrir ungu fólki til hvers það ætti að reyna að basla hér áfram. Húsnæðiskostnaður er óyfirstíganlegur. Matarverð er fráleitt, ekki síst á hollum og góðum mat sem í öðrum löndum er ódýr - grænmeti og ávöxtum - sem hér ætti þó að geta verið miklu ódýrari, nytu ylræktendur svipaðrar fyrirgreiðslu stjórnvalda og stóriðjan. Samgöngur eru erfiðar og fólk neytt til að reka einkabíla með tilheyrandi kostnaði. Og svo framvegis. Viðkvæmu jafnvægi þjóðarbúsins hefur nú þegar verið raskað af hálfu forstjóranna með óhóflegum kauphækkunum, sem þetta fólk samþykkir hvert öðru til handa með öllum greiddum atkvæðum; jafnvæginu var raskað af sjálfri yfirstéttinni - fjármagnsmöndlurunum, sem kalla sig stundum fjárfesta en væri kannski nær að kenna við fjárlos, því að þeir stunda það fremur að reyta fé út úr góðum rekstri en að festa það. Komma á röngum stað. Munur á hæstu launum og meðallaunum almennings er orðinn ískyggilega mikill og endurspeglar ekki virði eða veruleika eða yfirleitt nokkurn skapaðan hlut. Of mikil stéttaskipting stuðlar að því að samfélagssáttmálinn rofnar og hinir sterku fara fram með rangsleitni í krafti auðs og valda; samfélagið verður ósanngjarnt, ranglátt og óskilvirkt. Samræða hljóðnar en skæklatog verður allsráðandi. Undirstöður grotna niður. Eðlileg réttindi í velferðarsamfélagi verða munaður útvalinna. Almennar leikreglur þoka en frekjurnar ráða. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Hvammsvirkjun og meintur orkuskortur Ólafur Páll Jónsson Skoðun Upplýsingaóreiða og rannsóknir á mettaðri fitu Hópur lækna Skoðun Kóngar vímuefnaheimsins Lára G. Sigurðardóttir Skoðun 13,5 milljónir Sigurður Freyr Sigurðarson Skoðun Að vera léttvægur fundinn Guðmunda G. Guðmundsdóttir Skoðun Hvað með það þótt sérfræðingar að sunnan fari í verkfall? Silja Bára Ómarsdóttir Skoðun Halldór 18.01.2025 Halldór Er heimurinn á leið til helvítis? Árni Sigurðsson Skoðun Fögnum vopnahléi og krefjumst varanlegs friðar Svandís Svavarsdóttir,Guðmundur Ingi Guðbrandsson Skoðun Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun
Ýmsum þótti mannsbragð að því hjá Kristjáni Loftssyni að mæta sjálfur í Ríkisútvarpið til að ræða um 33% hækkun á launum til stjórnarmanna í Granda, sem samþykkt var samhljóða af fulltrúum hluthafa - líka fulltrúum lífeyrissjóðanna á meðan starfsfólki (sem á lífeyrissjóðina) er boðin 3,3% launahækkun. 33% - 3,3%. Þetta er Ísland í dag: komma á röngum stað.Hinn frekasti lifir af... En Kristján Loftsson mætti sem sagt í viðtal hjá RÚV, sem mörgum finnst eflaust kjarkað hjá manni með slíkt innlegg í viðkvæmar kjaraviðræður á Íslandi: Ég með mín ofsalaun á að fá tíu sinnum meiri hækkun fyrir ekkert en þið með ykkar skítalaun fyrir streð allan daginn af því að ég er tíu sinnum merkilegri en þið. Hann hafði að vísu ekki ýkja margt að segja annað en að svona væri þetta bara. Og nei, þessu yrði ekki breytt. Hann var á svipinn eins og hér væru að verki náttúrulögmál sem ekki væri á færi dauðlegra manna að hrófla við; hann yppti öxlum og brosti þolinmóðu en ögn tómlátu brosi eins og maður sem beðinn er um að stöðva eldgos. Samt vitum við öll að ekkert myndi svo sem gerast ef hann hætti störfum (annað en að Bandaríkjamenn færu kannski aftur að tala við Íslendinga). En hætti starfsfólk Granda að vinna lamast allt. Líklega er orðið tímabært að að leiða honum og hans kumpánum þetta fyrir sjónir. Já og fólkinu sjálfu: kannski orðið tímabært að almennt verkafólk komist að því hvers virði það er. Kristján Loftsson telur að hin náttúrulega skipan hlutanna sé sú að hann og hans kumpánar eigi allar auðlindir en fjöldinn eigi ekki neitt. Hinn frekasti lifi af. En kláðinn fer aldrei. Honum nægja ekki milljarðarnir sem hann fær til ráðstöfunar - og notar meðal annars til að stunda hvalveiðar í óþökk heimsins, svo að Íslendingar eru ekki hafðir með í ráðum þegar kemur að ákvörðunum um raunveruleg hagsmunamál þeirra, sem snúast um verndun hafsins fyrir losun alls kyns eiturefna. Honum nægja ekki þessir milljarðar sem hann ver svona viturlega - kláðinn hverfur ekki - hann þarf líka tvöhundruð þúsund krónur fyrir að mæta af og til á fundi til þess að náttúrulögmálin geti haft sinn gang. Ein versta vá sem steðjar að íslensku samfélagi er síaukin stéttaskipting, misskipting gæða og verðmæta; auðsöfnun fárra á kostnað fjöldans, undir forystu þeirra hugmyndafræðinga sem finnst ranglætið rétt. Þar hafði kvótakerfið úrslitaáhrif: þegar þáverandi fjórflokkur kom því svo fyrir með lagasetningu að óveiddur fiskur í sjónum sé "eign" tiltekinna manna og fyrirtækja sem selja megi fram og til baka og bókfæra - og veðsetja. Til urðu geysileg verðmæti sem engin innistæða var fyrir; bóla sem blés og blés út með kunnum afleiðingum. Og aftur eru fjármálaskáldin komin af stað og farin að spinna sinn auð án teljandi afskipta veruleikans.Stöðugleiki = misrétti Talsmenn forstjóranna, sem kalla sig Samtök atvinnulífsins, reyna nú af veikum mætti að útskýra fyrir þjóðinni að vernda þurfi stöðugleikann og allt fari í uppnám ef kröfur verkalýðssamtaka um 300.000 króna lágmarkslaun ná fram að ganga. Samt er arður sjávarútvegsfyrirtækjanna brjálæðislegur, ekki síst út af krónunni sem almennt bitnar á þjóðinni að sé ríkjandi gjaldmiðill; og ætti þá arðurinn væntanlega að gagnast þjóðfélaginu í heild, en ekki bara renna í dynti og heimskupör á borð við tómstundaiðju Kristjáns Loftssonar. Þeir vilja telja okkur trú um að tugprósenta launahækkanir til þeirra sjálfra sé náttúrulögmál og gott ef ekki stöðugleikinn sjálfur, en viðlíka hækkanir til almennings raski stöðugleikanum. Stöðugleikinn er bara annað orð yfir misrétti. Ísland er láglaunaland. Lífskjör eru hér verri en víðast hvar í nágrannalöndum okkar og erfitt að útskýra fyrir ungu fólki til hvers það ætti að reyna að basla hér áfram. Húsnæðiskostnaður er óyfirstíganlegur. Matarverð er fráleitt, ekki síst á hollum og góðum mat sem í öðrum löndum er ódýr - grænmeti og ávöxtum - sem hér ætti þó að geta verið miklu ódýrari, nytu ylræktendur svipaðrar fyrirgreiðslu stjórnvalda og stóriðjan. Samgöngur eru erfiðar og fólk neytt til að reka einkabíla með tilheyrandi kostnaði. Og svo framvegis. Viðkvæmu jafnvægi þjóðarbúsins hefur nú þegar verið raskað af hálfu forstjóranna með óhóflegum kauphækkunum, sem þetta fólk samþykkir hvert öðru til handa með öllum greiddum atkvæðum; jafnvæginu var raskað af sjálfri yfirstéttinni - fjármagnsmöndlurunum, sem kalla sig stundum fjárfesta en væri kannski nær að kenna við fjárlos, því að þeir stunda það fremur að reyta fé út úr góðum rekstri en að festa það. Komma á röngum stað. Munur á hæstu launum og meðallaunum almennings er orðinn ískyggilega mikill og endurspeglar ekki virði eða veruleika eða yfirleitt nokkurn skapaðan hlut. Of mikil stéttaskipting stuðlar að því að samfélagssáttmálinn rofnar og hinir sterku fara fram með rangsleitni í krafti auðs og valda; samfélagið verður ósanngjarnt, ranglátt og óskilvirkt. Samræða hljóðnar en skæklatog verður allsráðandi. Undirstöður grotna niður. Eðlileg réttindi í velferðarsamfélagi verða munaður útvalinna. Almennar leikreglur þoka en frekjurnar ráða.
Fögnum vopnahléi og krefjumst varanlegs friðar Svandís Svavarsdóttir,Guðmundur Ingi Guðbrandsson Skoðun
Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun
Fögnum vopnahléi og krefjumst varanlegs friðar Svandís Svavarsdóttir,Guðmundur Ingi Guðbrandsson Skoðun
Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun