Minnihluti allsherjar- og menntamálanefndar mótmælir fyrirhuguðu banni við verkfallsaðgerðum aðildarfélaga Bandalags háskólamanna og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og leggur til að málinu verði vísað frá. Telur hann ekki sýnt að fullreynt hafi verið að ná samningum með eðlilegum hætti við félögin og mótmælir „óhæfilegum flýti á meðferð málsins“.
Minnihlutinn telur að samningar hafi strandað á kröfu stjórnvalda um að miða samninga við viðkomandi félög við sömu forsendur og samninga á almennum vinnumarkaði, þrátt fyrir að grundvallarmunur sé á kjarasamningum á opinberum og almennum markaði.
Sjá einnig: „Bann við verkfalli á tvímælalaust rétt á sér“
„Af athugasemdum við frumvarpið virðist raunar mega greina að fyrirhugaðri lagasetningu sé öðrum þræði ætlað að knýja viðkomandi félög til að gangast undir kjarasamning á forsendum stjórnvalda . Í því felst mikið ójafnræði milli aðila og það getur ekki talist gildur grundvöllur fyrir banni við verkfalli,“ segir í áliti minnihlutans. Það skjóti skökku við að leggja eigi bann við verkfalli allra þeirra félaga sem fyrsta grein frumvarpsins taki til, þrátt fyrir að staða þeirra sé mjög misjöfn.
Álitið má lesa í heild hér.
