Einungis fjórir eða fimm uppreisnarmenn eru eftir í Sýrlandi, sem voru þjálfaðir og vopnaðir af Bandaríkjunum. Samkvæmt áætlun ættu þeir að vera fleiri en fimm þúsund. Öldungaþingmenn í Bandaríkjunum eru æfir yfir áætluninni og segja hana hafa misheppnast algjörlega.
Æðsti herforingi Bandaríkjanna í Mið-Austurlöndum, Lloyd Austin III, kom fyrir hernaðarmálanefnd Öldungaþingsins í dag. Hann var spurður að því hve margir menn sem þjálfaðir voru af Bandaríkjunum væru virkir í Sýrlandi.
„Þeir eru mjög fáir. Við erum að tala um fjóra eða fimm,“ hefur AP fréttaveitan eftir honum.
Þingið hefur samþykkt 500 milljóna dala fjárveitingu til verkefnisins en nú eru einungis um 200 menn í þjálfun. 54 menn voru sendir til Sýrlands í júlí, en vígamenn Al-nusra front, deildar Al-Qaeda í Sýrlandi réðust á hópinn. Þeir felldu nokkra og tóku fleiri í gíslingu. Restin flúði.
Eitt stærsta vandamálið varðandi þjálfunina er sú að flestir þeirra sem vilja þjálfun og vopn, vilja berjast gegn stjórnarher Bashar Assad, forseta Sýrlands. Þjálfunin er þó skilyrt því að mennirnir munu einungis berjast gegn Íslamska ríkinu. Þar að auki eru margir þeirra sem vilja berjast yngri en 18 ára.
Austin sagði þingmönnunum að hann teldi að það myndi taka mörg ár að ráða niðurlögum ISIS og koma jafnvægi á Sýrland og Írak. Talsmaður Hvíta hússins sagði í kvöld að hernaðarmálayfirvöld Bandaríkjanna væru nú að leita leiða til að bæta árangur verkefnisins. Josh Earnest tók þó fram að það væri alltaf auðvelt að gagnrýna hlutina eftir á.
Erlent