Lífið

StopWaitGo-systir hannar kjólana og skartið

Sunna Dögg Ásgeirsdóttir, fatahönnuður
Sunna Dögg Ásgeirsdóttir, fatahönnuður
„Við komum öll að þessu einhvern veginn,“ segir Sunna Dögg, sem gegnir hlutverki stílista í Eurovision-teymi Íslands í ár. Sunna hannaði sjálf alla skartgripina sem María mun skarta á sviðinu í Vín. „Ég valdi að hafa fiðrildi í aðalhlutverki, en ég tek mið af Maríu sjálfri og laginu,“ útskýrir Sunna og bætir við: „Bróðir minn teiknaði fiðrildið sem var á kjólnum hennar í undankeppninni og fannst mér kjörið að fara með það aðeins lengra, þar sem fiðrildið endurspeglar innihald textans nokkuð vel, það byrjar í púpu en springur svo út og verður svo fallegt og frjálst.“

Munu bakraddirnar einnig bera skartið og gerði Sunna sérstaka útgáfu fyrir þá Friðrik Dór og Ásgeir Örn, en það er svokallað póló. „Jón & Óskar smíðuðu skartið. Í framhaldinu þótti okkur borðleggjandi að láta gott af okkur leiða, svo almenningur getur keypt sér sitt eigið og rennur allur ágóði til Hugarafls, sem berst fyrir hagsmunum og mannréttindum fólks með geðröskun.“

Kjólarnir sem María kemur til með að klæðast á meðan á dvöl hennar stendur eru einnig hönnun Sunnu.

„Ég hannaði alls fimm kjóla, og hjálpaði mamma mér mikið. Hún saumaði til dæmis hverja einustu pallíettu á kjólinn sem María klæðist þegar hún stígur á sviðið.“

Þau systkinin héldu utan í gær og mun svo þrjátíu manna hópur fjölskyldumeðlima mæta í næstu viku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.