„Þessi hugmynd er búin að vera í kollinum á mér lengi. Ég hef verið tíður gestur í Vesturbæjarlauginni lengi og þaðan kemur hugmyndin,“ segir Harpa Fönn Sigurjónsdóttir leikstjóri
Eftir að hafa fengið handritsstyrk frá Kvikmyndamiðstöð ákvað hún að hella sér í gerð myndarinnar, með dyggri aðstoð frá Askja Films. „Ég fór að mæta í pottinn í Vesturbæjarlaug klukkan hálfsjö alla morgna. Þar var ég tekin inn í svokallaðan húnahóp, sem dregur nafn sitt af því að þau eru alltaf mætt áður en það opnar, þannig að þau liggja á hurðarhúninum,“ segir Harpa og hlær.
Áður en gerð myndarinnar hófst hafði Harpa meðal annars ferðast til Japans og Finnlands þar sem hún skoðaði bað- og sánamenningu þjóðanna. „Þetta er ekki ólíkt pottamenningunni hér. Þarna er fólk fáklætt og þegar fólk er búið að taka niður hinn hversdagslega búning myndast meiri nánd og virðing og allir verða jafnir.“

„Ég kynntist fólkinu og karakterunum smám saman. Þetta var eiginlega eins og að vera fluga á vegg.“ Myndin fangar stemninguna í kringum pottamenninguna þannig að áhorfandinn lifir sig inn í myndina, þar sem mikið er unnið með hljóð og mynd.
Harpa segist hafa áttað sig á að hreyfingin og útiveran væru aukaatriði og spilaði félagslegi þátturinn stærsta hlutverkið. „Potturinn er eins og félagsmiðstöð. Amma mín og afi voru bæði fastagestir í heitu pottunum, og þegar þau skildu þurftu þau að ákveða í hvaða laug hitt ætti að fara. Við eigum öll okkar griðastað þar sem við hittum fólk og finnum öryggi. Þetta er þeirra staður.“
Lokafjármögnun á myndinni stendur nú yfir á Karolina Fund og geta áhugasamir lagt söfnuninni lið þar.