Valsmenn unnu sannfærandi 2-0 sigur í fyrri leik liðanna á Hlíðarenda, sem var fyrsta af mörgum stórum prófum sem FH-ingar hafa lent í vandræðum með í deild og bikar í sumar.
FH-ingar hafa síðan spilað fjóra stórleiki í röð án þess að ná að fagna sigri og hafa þar af tapað tvisvar fyrir KR-ingum, í bæði deild og bikar. Það má sjá yfirlit yfir leikina hér fyrir neðan.
Í báðum jafnteflisleikjum FH-liðsins, á móti Íslandsmeisturum Stjörnunnar og spútnikliði Breiðabliks lentu FH-ingar undir en náðu að tryggja sér jafntefli í seinni hálfleik. Jöfnunarmarkið gegn Blikum kom í uppbótartíma.
Valsmenn hjálpa bæði sjálfum sér og KR-ingum með sigri í kvöld en sigur kæmi Hlíðarendaliðinu upp að hlið FH á sama tíma og KR-ingar gætu náð þriggja stiga forskoti með sigri á Fjölni í Grafarvogi.
FH-ingar þurfa hins vegar að fara að sýna að þeir geti klárað stóru leikina ætli þeir að endurheimta Íslandsbikarinn í Kaplakrika. Ólíkt KR og Val, sem mætast í bikarúrslitaleiknum í ár, þá er Íslandsmótið eini möguleiki FH-liðsins á titli í ár. Það hefur lítið gengið á stóra sviðinu og nú er að sjá hvort það verður saga sumarsins eða hvort FH-ingar ætla loksins að sýna klærnar í stórleik.
Það fer annars heil umferð fram í kvöld og eftir hana eiga liðin aðeins sjö leiki eftir af tímabilinu. Spennan er því farin að aukast verulega í baráttunni á toppi og botni Pepsi-deildarinnar.
Leikur ÍBV og Fylkis hefst klukkan 18.00 en klukkan 19.15 fara síðan fram eftirtaldir leikir: Víkingur-ÍA, Breiðablik-Keflavík, Fjölnir-KR, Leiknir-Stjarnan og loks leikur FH og Vals sem verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Klukkan 22.00 gerir Hörður Magnússon síðan upp umferðina í Pepsi-mörkunum.
