Frakkland, Frakkland Þorvaldur Gylfason skrifar 13. ágúst 2015 07:00 Fáar þjóðir eiga sér markverðari sögu síðustu alda en Frakkar. Franska byltingin sem hófst 1789 lagði ásamt grónu þingræði Bretlands og sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna 1776 grunninn að lýðræðisskipulagi nútímans, einni snjöllustu uppfinningu mannsins ásamt eldinum og hjólinu – og hjónabandinu, bæti ég stundum við. Hausar flugu í frönsku byltingunni, rétt er það, þeir hefðu mátt vera miklu færri. Byltingin tók áratugi og kostaði blóðugar styrjaldir, kenndar við Napóleon, en um árangurinn þegar upp var staðið verður ekki efazt: Lög og rétt og lýðræði og loks félagsleg velferðarríki sem Þjóðverjar lögðu í púkkið í stjórnartíð Bismarcks kanslara 1871-1890.Þrjár styrjaldir Að lokinni umbótahrinu eftir Napóleonsstyrjaldirnar 1803-1815 stofnuðu Þjóðverjar til þriggja styrjalda við Frakka. Í hinni fyrstu, 1870-1871, sem spratt af sameiningu Þýzkalands, höfðu Þjóðverjar sigur. Hinar tvær urðu að heimsstyrjöldum, 1914-1918 og 1939-1945, og þar höfðu Frakkar og bandamenn þeirra sigur gegn árásarherjum Þjóðverja. Evrópusambandið er í reyndinni sáttmáli Frakka, Þjóðverja og annarra Evrópuþjóða um varanlegan frið í álfunni. Helmut Kohl, kanslari Þýzkalands 1982-1998, orðaði þessa hugsun vel þegar hann sagði: Höfuðmarkmið Þjóðverja í ESB er að deila fullveldi sínu með öðrum Evrópuþjóðum og binda svo hendur sínar að nágrannar Þýzkalands þurfi aldrei framar að óttast innrás þýzkra herja. Frakkar tóku þessu boði tveim höndum og það hafa nær allar þjóðir álfunnar gert nema Svisslendingar, Norðmenn og Íslendingar. Sérstaða Sviss felst í að landinu tókst að halda sér utan við báðar heimsstyrjaldir og láta með því móti ýmislegt gott af sér leiða, m.a. með því að skjóta skjólshúsi yfir flóttamenn. Sérstaða Noregs felst í miklum olíuauði sem Norðmönnum finnst mörgum draga úr aðdráttarafli ESB-aðildar, en ýmsum öðrum þætti fara betur á að Noregur, sem var hersetinn af nasistum í síðari heimsstyrjöldinni, ætti aðild að friðarsambandi með þann höfuðtilgang að halda Þýzkalandi í skefjum. Ísland er kafli út af fyrir sig.Menning borgar sig Fegurð og menning Frakklands hafa gríðarlegt aðdráttarafl. París skipar nú fimmta sæti listans yfir þær borgir sem laða til sín flesta erlenda ferðamenn. Í fyrstu fjórum sætunum eru Hong Kong, Singapúr, Bangkok og London. Fjórum sinnum fleiri ferðamenn heimsækja París á hverju ári en Berlín. Maturinn, vínið, kvikmyndirnar, músíkin, myndlistin, landsbyggðin, það er næstum sama hvað nefnt er: Frakkar hafa löngum staðið í allra fremstu röð. Meðfram óskiptri aðdáun á menningu Frakklands hafa grannar Frakka stundum kvartað undan óhagkvæmri efnahagsstefnu franskra stjórnvalda, markaðsfirringu og miklum ríkisafskiptum. Mörgum finnast frönsk stjórnvöld hneigjast um of til að taka sér stöðu við hlið framleiðenda gegn neytendum. Sameiginleg landbúnaðarstefna ESB er gott dæmi. Hún er afsprengi Frakka. Hún leggur þungar byrðar á neytendur og skattgreiðendur innan ESB og hafði löngum að auki alvarlegar afleiðingar fyrir fátæka bændur í þróunarlöndum með því að meina þeim markaðsaðgang að ESB, en nú hefur verið bætt fyrir það með sérstökum undanþágum fyrir fátækustu löndin. Landbúnaðarstefna ESB er samt hátíð hjá landbúnaðarstefnu íslenzkra stjórnvalda allar götur frá 1920. Sama framleiðsluverndarhugsjón einkennir ýmsa aðra hluta fransks efnahagslífs. Nýtt dæmi er reynsla leigubílafyrirtækisins Uber, sem hefur höfuðstöðvar í San Francisco og gerir út leigubíla í 300 borgum í 58 löndum. Viðskiptahugmyndin er einföld: menn nota app (beygist eins og happ) í símanum sínum til að panta leigubíl sem er aldrei langt undan. Franska lögreglan hefur fengið fyrirmæli um að stöðva leigubíla frá Uber og taka þá úr umferð á þeirri forsendu að þeir ógni lögverndaðri stöðu gamalgróinna bílastöðva. Stjórnendur Uber hafa harðsnúna lögmenn á sínum snærum og telja sig vera í fullum rétti. Enginn veit hvernig viðureigninni lýkur. Þrátt fyrir þessi frávik og önnur frá heilbrigðum markaðsbúskap hefur frönsku efnahagslífi vegnað vel á heildina litið. Frakkar hafa með sögu sína og menningu og aðdáun umheimsins að bakhjarli efni á að mylja undir framleiðendur á kostnað neytenda og skattgreiðenda. Kaupmáttur þjóðartekna á mann er að sönnu meiri í Þýzkalandi en í Frakklandi. Kaupmáttur þjóðartekna á hverja vinnustund er þó meiri í Frakklandi en í Þýzkalandi þar eð Frakkar vinna minna en Þjóðverjar. Grikkir vinna á hinn bóginn miklu meira en Þjóðverjar, 2.000 stundir á ári að jafnaði á móti 1.400 stundum í Þýzkalandi. Það er efni í aðra grein. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Flóttamenn Þorvaldur Gylfason Mest lesið Samfélag án Pírata Lenya Rún Taha Karim Skoðun Þarf ég að flytja úr landi? Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir Skoðun Foreldrar, ömmur og afar þessa lands - áskorun til ykkar! Ragnheiður Stephensen Skoðun Krónan eða evran? Kostir og gallar Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Bannað að lækna sykursýki II Lukka Pálsdóttir Skoðun Helvítis fokking fokk!! Er ekki nóg komið? Maríanna H. Helgadóttir Skoðun Borgið lausnargjaldið Ólafur Hauksson Skoðun Þegar Skagamenn glöddu lítið hjarta María Rut Kristinsdóttir Skoðun Flokkur fólksins ræðst gegn hagsmunum eldra fólks og komandi kynslóða Þorsteinn Sæmundsson Skoðun Íslenski fasteignamarkaðurinn: spilavíti þar sem húsið vinnur alltaf Ingvar Þóroddsson Skoðun
Fáar þjóðir eiga sér markverðari sögu síðustu alda en Frakkar. Franska byltingin sem hófst 1789 lagði ásamt grónu þingræði Bretlands og sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna 1776 grunninn að lýðræðisskipulagi nútímans, einni snjöllustu uppfinningu mannsins ásamt eldinum og hjólinu – og hjónabandinu, bæti ég stundum við. Hausar flugu í frönsku byltingunni, rétt er það, þeir hefðu mátt vera miklu færri. Byltingin tók áratugi og kostaði blóðugar styrjaldir, kenndar við Napóleon, en um árangurinn þegar upp var staðið verður ekki efazt: Lög og rétt og lýðræði og loks félagsleg velferðarríki sem Þjóðverjar lögðu í púkkið í stjórnartíð Bismarcks kanslara 1871-1890.Þrjár styrjaldir Að lokinni umbótahrinu eftir Napóleonsstyrjaldirnar 1803-1815 stofnuðu Þjóðverjar til þriggja styrjalda við Frakka. Í hinni fyrstu, 1870-1871, sem spratt af sameiningu Þýzkalands, höfðu Þjóðverjar sigur. Hinar tvær urðu að heimsstyrjöldum, 1914-1918 og 1939-1945, og þar höfðu Frakkar og bandamenn þeirra sigur gegn árásarherjum Þjóðverja. Evrópusambandið er í reyndinni sáttmáli Frakka, Þjóðverja og annarra Evrópuþjóða um varanlegan frið í álfunni. Helmut Kohl, kanslari Þýzkalands 1982-1998, orðaði þessa hugsun vel þegar hann sagði: Höfuðmarkmið Þjóðverja í ESB er að deila fullveldi sínu með öðrum Evrópuþjóðum og binda svo hendur sínar að nágrannar Þýzkalands þurfi aldrei framar að óttast innrás þýzkra herja. Frakkar tóku þessu boði tveim höndum og það hafa nær allar þjóðir álfunnar gert nema Svisslendingar, Norðmenn og Íslendingar. Sérstaða Sviss felst í að landinu tókst að halda sér utan við báðar heimsstyrjaldir og láta með því móti ýmislegt gott af sér leiða, m.a. með því að skjóta skjólshúsi yfir flóttamenn. Sérstaða Noregs felst í miklum olíuauði sem Norðmönnum finnst mörgum draga úr aðdráttarafli ESB-aðildar, en ýmsum öðrum þætti fara betur á að Noregur, sem var hersetinn af nasistum í síðari heimsstyrjöldinni, ætti aðild að friðarsambandi með þann höfuðtilgang að halda Þýzkalandi í skefjum. Ísland er kafli út af fyrir sig.Menning borgar sig Fegurð og menning Frakklands hafa gríðarlegt aðdráttarafl. París skipar nú fimmta sæti listans yfir þær borgir sem laða til sín flesta erlenda ferðamenn. Í fyrstu fjórum sætunum eru Hong Kong, Singapúr, Bangkok og London. Fjórum sinnum fleiri ferðamenn heimsækja París á hverju ári en Berlín. Maturinn, vínið, kvikmyndirnar, músíkin, myndlistin, landsbyggðin, það er næstum sama hvað nefnt er: Frakkar hafa löngum staðið í allra fremstu röð. Meðfram óskiptri aðdáun á menningu Frakklands hafa grannar Frakka stundum kvartað undan óhagkvæmri efnahagsstefnu franskra stjórnvalda, markaðsfirringu og miklum ríkisafskiptum. Mörgum finnast frönsk stjórnvöld hneigjast um of til að taka sér stöðu við hlið framleiðenda gegn neytendum. Sameiginleg landbúnaðarstefna ESB er gott dæmi. Hún er afsprengi Frakka. Hún leggur þungar byrðar á neytendur og skattgreiðendur innan ESB og hafði löngum að auki alvarlegar afleiðingar fyrir fátæka bændur í þróunarlöndum með því að meina þeim markaðsaðgang að ESB, en nú hefur verið bætt fyrir það með sérstökum undanþágum fyrir fátækustu löndin. Landbúnaðarstefna ESB er samt hátíð hjá landbúnaðarstefnu íslenzkra stjórnvalda allar götur frá 1920. Sama framleiðsluverndarhugsjón einkennir ýmsa aðra hluta fransks efnahagslífs. Nýtt dæmi er reynsla leigubílafyrirtækisins Uber, sem hefur höfuðstöðvar í San Francisco og gerir út leigubíla í 300 borgum í 58 löndum. Viðskiptahugmyndin er einföld: menn nota app (beygist eins og happ) í símanum sínum til að panta leigubíl sem er aldrei langt undan. Franska lögreglan hefur fengið fyrirmæli um að stöðva leigubíla frá Uber og taka þá úr umferð á þeirri forsendu að þeir ógni lögverndaðri stöðu gamalgróinna bílastöðva. Stjórnendur Uber hafa harðsnúna lögmenn á sínum snærum og telja sig vera í fullum rétti. Enginn veit hvernig viðureigninni lýkur. Þrátt fyrir þessi frávik og önnur frá heilbrigðum markaðsbúskap hefur frönsku efnahagslífi vegnað vel á heildina litið. Frakkar hafa með sögu sína og menningu og aðdáun umheimsins að bakhjarli efni á að mylja undir framleiðendur á kostnað neytenda og skattgreiðenda. Kaupmáttur þjóðartekna á mann er að sönnu meiri í Þýzkalandi en í Frakklandi. Kaupmáttur þjóðartekna á hverja vinnustund er þó meiri í Frakklandi en í Þýzkalandi þar eð Frakkar vinna minna en Þjóðverjar. Grikkir vinna á hinn bóginn miklu meira en Þjóðverjar, 2.000 stundir á ári að jafnaði á móti 1.400 stundum í Þýzkalandi. Það er efni í aðra grein.