Fjórir ungir, íslenskir einleikarar koma fram með sinfóníunni í kvöld í Eldborgarsal Hörpu. Þeir unnu árlega einleikarakeppni sem hljómsveitin og Listaháskólinn standa fyrir og þetta eru því fyrstu skref þeirra á stóru sviði með atvinnuhljómsveit. Þeir eru Heiðdís Hanna Sigurðardóttir einsöngvari, Sigríður Hjördís Indriðadóttir flautuleikari, Jónas Ásgeir Ásgeirsson harmonikkuleikari og Ragnar Jónsson sellóleikari.
Keppnin er opin tónlistarnemendum á fyrsta háskólastigi, óháð því hvaða tónlistarskóla þeir sækja, og Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor LHÍ, segir tilganginn þann að styðja við efnilegustu tónlistarnemendurna og gefa á sama tíma áheyrendum tækifæri til að fylgjast með þeim.
„Stemningin á tónleikunum er jafnan einstök,“ segir hún og undir það tekur Arna Kristín Einarsdóttir, framkvæmdastjóri hljómsveitarinnar.
„Það er óhætt að segja að það sé stór stund þegar vinningshafar keppninnar stíga á svið með hljómsveitinni og alltaf sérstök eftirvænting í loftinu að heyra í nýjum ungum einleikurum,“ segir hún.
Fluttir verða þrír einleikskonsertar á tónleikunum, forleikur og aríur.
Sérstök eftirvænting í loftinu
