Verð hráolíu frá Bandaríkjunum og Evrópu lækkaði um rúm sex prósent í dag. West Texas vísitalan endaði í 30,99 dölum á tunnu og hefur ekki verið lægri frá því í desember 2003. Sömu sögu er að segja af Brent vísitölunni sem endaði í 31,9 dölum.
Sérfræðingar fyrirtækisins Morgan Stanley segja endalok lækkunar á olíu ekki vera í sjónmáli. OPEC ríkin framleiði enn að vild og að útflutningur Íran muni aukast mjög á næstu mánuðum. Þá séu líkur á því að áfram muni draga úr eftirspurn.
Olíuverð hefur farið lækkandi frá því um mitt ár 2014, þegar OPEC ríkin flæddu markaði til að gera bergbrot (e. fracking) í Bandaríkjunum óhagkvæmt.
Sjá einnig: OPEC ríkin bregðast ekki við verðfalli olíu
Samkvæmt frétt Reuters fréttaveitunnar gæti olíuverð farið niður í 20 til 25 dali á tunnu, rétti efnahagur Kína ekki úr kútnum. Um mitt ár 2014 var verðið yfirleitt í kringum hundrað dali á tunnu.
