Frumsýna átti hrollvekjuna Hleyptu þeim rétta inn í leikstjórn Selmu Björnsdóttir á stóra sviði Þjóðleikhússins í dag, en frumsýningunni hefur verið frestað þar sem Vigdís Hrefna Pálsdóttir, aðalleikkona sýningarinnar, ristarbrotnaði á vinstri fæti og hlaut tvöfalt hælbrot á hægri fæti eftir hátt fall á stóra sviðinu, fyrir framan nær fullan sal á lokaæfingu í Þjóðleikhúsinu síðastliðið þriðjudagskvöld.

Lára Jóhanna Jónsdóttir leikkona hefur tekið þátt í fjölda leikverka bæði í Borgarleikhúsinu og Þjóðleikhúsinu undanfarin ár en um þessar mundir leikur Lára Jóhanna í leikritinu Sporvagninn Girnd ásamt aðalhlutverki í sýningunni Í hjarta Hróa hattar sem hefur fengið virkilega góðar viðtökur og hefur nú þegar verið bætt við fjölda sýninga vegna eftirspurnar. Búast má við að allt fari á fullt á næstu dögum til að koma Láru inn í hlutverk Vigdísar Hrefnu fyrir frumsýningardag.
„Við þurftum að fresta frumsýningunni vegna slyssins og komum til með að frumsýna verkið 10. mars næstkomandi,“ segir Ari Matthíasson bjartsýnn á framhaldið.