Real Madrid tapaði fyrri leiknum í Þýskalandi nokkuð óvænt, 0-2, og átti því erfitt verkefni fyrir höndum á Santíago Bernabeu í kvöld. En eins og svo oft áður kom Ronaldo til bjargar.
Portúgalinn opnaði markareikning sinn á 16. mínútu þegar hann skoraði af stuttu færi. Og aðeins mínútu síðar var staðan orðin 2-0 eftir að Ronaldo skallaði hornspyrnu Toni Kroos í netið.
Staðan var 2-0 í hálfleik og allt fram á 77. mínútu þegar Ronaldo fullkomnaði þrennuna með skoti beint úr aukaspyrnu sem fór í gegnum varnarvegg Þjóðverjanna.
Fleiri urðu mörkin ekki og Real Madrid því komið í undanúrslit Meistaradeildarinnar sjötta árið í röð sem er jöfnun á meti Barcelona.