"Þetta er leikur sem við erum búin að bíða lengi eftir," sagði Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari kvenna í fótbolta, um stórleikinn gegn Skotum í Falkirk 3. júní.
Þar mætast tvö efstu lið riðils eitt í undankeppni Evrópumót kvenna í fótbolta. Skotar eru efstir með fimmtán stig eða fullt hús en Ísland er er einnig með fullt hús eftir fjóra leiki.
Sjá einnig:Stelpurnar sem mæta Skotum og Makedóníu
Freyr segir að gæðin í leiknum verði mikil enda tvö virkilega góð lið að mætast. Hann benti knattspyrnumönnum sérstaklega aá að fylgjast með baráttunni á miðjunni.
"Þegar ég segi að fremstu miðjumenn í Evrópu mætast vil ég meina að íslenska landsliðið sé með eina af þremur sterkustu miðjum í Evrópu," segir Freyr en miðju íslenska liðsins skipa þær Sara Björk Gunnarsdóttir, Dagný Brynjarsdóttir og Margrét Lára Viðarsdóttir.
Sara Björk var á dögunum að skipta frá FC Rosengård til Wolfsburg sem er eitt stærsta og flottasta kvennalið í Evrópu. Hennar verkefni verður að gæta Kim Little, stjörnuleikmanns Skota, sem er einn besti leikmaður Evrópu.
Sjá einnig:Freyr: Ekki í boði að vera fórnarlömb út af strákunum
Kim Little hefur spilað í Evrópu, Bandaríkjunum og í Ástralíu og alltaf verið kosin best hvar sem hún spilar. Little var síðast kjörin best í Bandaríkjunum 2014 og var stoðsendingadrottning í fyrra.
"Sara Björk spilar aftarlega á miðjunni hjá okkur og Kim Little fremst á miðjunni hjá þeim. Það er alveg frábær leikmaður eins og Sara. Það má alveg segja að þarna mætist tveir af fremstu miðjumönnum heims," segir Freyr Alexandersson.
