Lífið

Danskur dóm­nefndar­með­limur kunni ekki á stiga­kerfið

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Það var vilji dönsku dómnefndarinnar að Dama Im fengi tólf stig en fyrir mistök fékk Jamala stigin tólf.
Það var vilji dönsku dómnefndarinnar að Dama Im fengi tólf stig en fyrir mistök fékk Jamala stigin tólf. vísir/epa/epa
Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva bauð upp á glænýtt stigakerfi í ár sem virtist rugla margan áhorfandann í ríminu. Það voru hins vegar ekki eingöngu áhorfendur sem áttuðu sig illa á kerfinu því danskur dómnefndarmaður misskildi það gjörsamlega.

Hilda Heick skipaði eitt af fimm sætum dönsku dómnefndarinnar. Það féll í hennar hlut að raða lögunum 26 í þá röð á þann hátt að það lag sem henni þótti vera best átti að vera númer eitt, næstbest númer tvö og svo koll af kolli. Heick gerði hins vegar akkúrat öfugt. Þetta sést glöggt ef danska skorblaðið er skoðað.

Heick fannst hin ástralska Dama Im standa sig best en var hins vegar þeirrar skoðunar að úkraínska lagið, sem endaði á því að sigra, væri næstverst. Hins vegar setti hún Ástralann í neðsta sæti, alveg óvart, og úkraínska lagið næst efst.

Mistökin þýddu að úkraínska lagið hlaut tólf stig frá Dönum en hefði Heick raðað eins og hún ætlaði sér þá hefði Ástralía fengið tólf stig.

„Hjartað mitt missti úr slag þegar ég áttaði mig á mistökunum. Þegar ég sá hvernig hinir meðlimirnir kusu þá áttaði ég mig á því hvað hafði gerst,“ sagði Heick í samtali við vefmiðilinn BT. Hefði hún kosið líkt og hún ætlaði sér hefði það þýtt að aðeins mjórra hefði verið á mununum milli fyrsta og annars sætis en það hefði eigi dugað til að hífa Ástralíu upp í sigurinn.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.