Hjólreiðamaður á Ólympíumóti fatlaðra í Ríó lést í keppni í kvöld. Hjólreiðakappinn hét Bahman Golbarnezhad, 48 ára, sem lést eftir að hafa lent í árekstri í götukeppninni. Hlúð var að honum á vettvangi slyssins en þegar flytja átti hann á sjúkrahús fékk hann hjartaáfall og var úrskurðaður látinn við komuna á sjúkrahúsið. Hafin er rannsókn á tildrögum slyssins.
Golbarnezhad var frá Íran en íranski fáninn var dreginn í hálfa stöng í Ólympíuþorpinu og verður hans minnst á lokaathöfn leikanna á morgun.
Þetta er í fyrsta skiptið sem einhver lætur lífið í keppni á Ólympíuleikum frá því danski hjólreiðakappinn Knud Enemark Jensen lést í tímatöku á leikunum í Róm árið 1960, að því er fram kemur á vef BBC.
