Líkt og greint hefur verið frá á Vísi í dag sagði Óskar Steinn Agli að fokka sér í kjölfar þess að Egill gagnrýndi tíst Óskars þar sem hann vakti athygli á þeirri umræðu sem átti sér stað á Alþingi á meðan Unnur Brá gaf barni sínu brjóst.
Frumvarpið sem Unnur Brá talaði fyrir í dag (með barnið á brjósti) snýst um að vísa útlendingum hraðar úr landi. En ógeðslega krúttlegt.
— Óskar Steinn (@oskasteinn) October 12, 2016
Kæri Samfylkinga-Óskar. Gætirðu mögulega gefið út topic-lista fyrir konur þar sem þær geta séð hvað þær mega ræða þegar þær gefa brjóst? https://t.co/ZfvMIRIJgC
— Egill Einarsson (@EgillGillz) October 13, 2016
„Ástæða þess að ég var svolítið reiður í gær og sendi út þetta tíst er að við erum að senda börn úr landi sem þekkja ekkert annað heimili en Ísland. Við erum að gera þetta trekk í trekk og hér ríða yfir reiðiöldur í samfélaginu í hvert skipti sem þessar fréttir koma,“ segir Óskar.
Tístið hafi ekki beinst að brjóstagjöf Unnar Brár.

Rifjar upp umdeilda bloggfærslu Egils
Honum hafi hins vegar blöskrað í morgun þegar hann hafi séð Egil Einarsson svara tísti sínu. Óskar segir að Egill hafi ekki efni á því að gagnrýna sig á feminískum grundvelli.
„Mér fannst svo fáranlegt að fá þessa gagnrýni frá Agli sem hefur verið að beita orðræðu sem normalíserar nauðganir,“ segir Óskar og vísar þar sérstaklega til umdeildar bloggfærslu sem Egill skrifaði á bloggsíðu sína árið 2007 þar sem hann sagði Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, þá þingmann Samfylkingarinnar vera portkonu.

Egill fjarlægði síðar þessa bloggfærslu og árið 2010, þegar hún var rifjuð upp eftir að Egill varð andlit símaskrárinnar, sagði Egill að hann hefði ekki verið að hvetja til nauðgana með færslunni. Þarna hafi verið grófur einkahúmor á ferð. Óskar segir að það sé ekki gild afsökun.
„Við höfum séð núna bylgju af sögum frá konum á samfélagsmiðlum frá konum sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi. Nauðgunarmenning er mikið vandamál á Íslandi og Egill er búinn að vera ýta undir hana með sínum orðum í gegnum tíðina,“ segir Óskar og vísar þar til Twitter-færslu Hildar Lilliendahl þar sem hún hvatti íslenskar konur til að deila reynslu sinni af kynferðisofbeldi. Frásagnir eru orðnar yfir 50 talsins og hafa vakið mikla athygli.
Óskar segir þó að hann gripið of harkalega til orða og biðst hann afsökunar á því sem hann sagði við Egil á Twitter.
„Ég tók of harkalega orða og ég biðst afsökunar á því. Svona eigum við hvorki að tala við né um fólk. Við eigum að vera málefnanleg og ég biðst afsökunar á því að taka svona harkalega til orða.“