Árni Páll Árnason, Helgi Hjörvar og Össur Skarphéðinsson eru á meðal þingmanna sem hverfa af þingi fari sem horfir þegar klukkan er um þrjú og rúmlega fjörutíu prósent atkvæða hafa verið talin í alþingiskosningum.
Framsóknarflokkurinn fær aðeins átta þingmenn og Samfylkingin verður annar af tveimur minnstu flokkunum á Alþingi, með fjóra þingmenn.
Samfylkingin fær engan þingmann kjörinn í Suðvesturkjördæmi og sömuleiðis ekki í Reykjavíkurkjördæmi Suður. Árni Páll og Össur leiða viðkomandi lista en Helgi Hjörvar er í öðru sæti í Reykjavík Norður þar sem Sigríður Ingibjörg Ingadóttir leiðir listann.
Í Suðvesturkjördæmi er Eygló Harðardóttir inni en Willum Þór Þórsson í öðru sæti og stefnir því allt í að hann verði áfram þjálfari KR í efstu deild karla í knattspyrnu. Beðið hefur verið eftir niðurstöðu kosninga í Vesturbænum til að hægt sé að taka ákvörðun um hvort Willum þjálfi liðið áfram, sem allt stefnir í.
Karl Garðarsson, efsti maður á lista Framsóknar í Reykjavík Norður, nær ekki inn á þing eins og staðan er nú, um þrjúleytið þegar rúmlega 42% atkvæða hafa verið talin.
Reynsluboltar úr röðum Framsóknar og Samfylkingar að kveðja
Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
